Skip to content

Miðbæjarreiðin 3. júní

Hvetjum Sprettara til þess að fjölmenna í miðbæinn nk laugardag.

Miðbæjarreið Landssambands Hestamannafélaga og Horses of Iceland verður haldin laugardaginn, 3. júní kl. 15:00 í miðbæ Reykjavíkur. Miðbæjarreiðin er ákaflega skemmtileg hefð sem vekur athygli á því mikilvæga hlutverki sem Íslenski hesturinn hefur í hjörtum okkar Íslendinga.

Í ár mun reiðin hefjast formlega við Hallgrímskirkju kl 15:00 þaðan sem haldið verður niður Skólavörðustíginn, Bankastræti, yfir Lækjargötuna, Austurstræti, Pósthússtræti og stoppað við Austurvöll. Þar munu knapar stíga af baki og áhorfendum gefst tækifæri á að koma nær hestunum, klappa þeim, taka myndir og hitta knapana, sem verða á öllum aldri. Á Austurvelli verður einnig tónlistaratriði og samningur vegna Landsmóts 2024 í Reykjavík handsalaður. Eftir stoppið verður haldið af stað niður Templarastræti, út Vonarstræti og með fram Tjörninni og þaðan fara hestarnir á BSÍ þar sem reiðin endar um kl 16.30.

Landssamband Hestamannafélaga og Horses of Iceland hvetja alla til að koma með fjölskyldu og vini til að horfa á hesta og knapa fara um miðbæinn. Við hlökkum til að sjá ykkur!

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í reiðinni, mæta á BSÍ kl 14:00. Hestar skulu vera snyrtilegir sem og allur búnaður og eru knapar hvattir til að mæta í ullarpeysum. Endilega reynum að sameinast í bíla og kerrur.  Frekari upplýsingar um miðbæjarreiðina má fá hjá Jónínu Sif: joninasif@lhhestar.is