Skip to content

Kynbótasýning í Spretti 10 – 14 júní

Á morgun, mánudaginn 10. júní hefst kynbótasýning í Spretti. Sýningin er rúmlega fullbókuð og von er á mörgum glæsilegum gæðingum í braut í vikunni.

Stjórn Spretts hefur fengið til liðs við sig einvala lið Sprettara til að aðstoða við undirbúning og rennsli á sýningunni. Í vikunni sem leið er búið að laga til og þrífa í rennunni, í Gaukshreiðrinu og á kaffistofunni á 2. hæð. Öll aðstaða til mælinga og byggingardóms lítur svakalega vel út. Kynbótavöllurinn er líka í toppstandi en Bjössi og Haukur hafa séð um að græja völlinn fyrir sýninguna. Haukur hefur jafnframt tekið að sér hlutverk vallarstjóra á sýningunni. Eins og áður kom fram leitaði stjórn til Erlu Guðnýjar um að halda utan um framkvæmd kynbótasýninganna.

Vakin er athygli á því að búið er að draga út eitt tjald, á milli bila, í Samskipahöllinni. Þetta er gert til að hafa ljósan bakgrunn þar sem hross eru byggingardæmd. Fremsta bilið, næst rennunni, verður lokað frá mánudegi og þar til byggingardómum lýkur á fimmtudag. Á meðan byggingardómar eru í gangi er öll höllin lokuð, en bil 2 og 3 eru opin á meðan reiðdómar eru í gangi. Nánara skipulag má finna á reiðhallardagatalinu inná sprettur.is. Við biðjum knapa að fara varlega við hvíta tjaldið sem aðskilur bilin og ekki ríða alveg upp að því.

Við hvetjum Sprettara til að koma og fylgjast með dómum og kíkja hversu fínt er orðið hjá okkur.  Það verður kaffi í boði Spretts í rennunni fyrir starfsfólk, knapa og gesti.

Sýningunni verður útvarpað á 106,1.