Eins og allir Fáks- og Sprettsfélagar vita þá styttist í Landsmót. Fákur og Sprettur riðu á vaðið með sínar gæðingaúrtökur síðastliðna helgi og fara úrtökur annarra félaga fram næstu helgar.
Við ætlum að taka vel á móti keppendum og reyna eftir fremsta megni að útvega þeim pláss fyrir sín keppnishross.
Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að starfsmaður LM, Vilfríður Fannberg, mun taka á móti umsóknum frá hesthúseigendum í Víðidal og í Spretti sem hafa áhuga á að leigja hesthús sín. Þegar umsóknir berast frá keppendum um hesthúspláss verður honum komið í samband við hesthúseiganda og hafa þeir bein samskipti sín á milli varðandi leigugjald og afhendingu.
Viðmiðunarverð er 1.500 krónur sólarhringurinn án heys og spænis sem hægt verður að kaupa á svæðinu.
Hér að neðan er hlekkur á skráningarform fyrir þá sem vilja leigja út hesthús sín.
https://fakur.is/hesthusaplass-a-landsmoti-2024/
Einnig er hægt að hafa samband við Vilfríði á netfanginu hesthus@fakur.is