Skip to content

Pistill frá stjórn

Nokkuð hefur verið að gera hjá Stjórn frá því að við settum fram síðasta pistil. Framkvæmdastjórinn fór í leyfi frá störfum og var fyrirhugaða að hún yrði fjarverandi í mánuð. Stjórn hefur stokkið í verkin í fjarveru Lilju og náð að koma sér vel inn í stöðu félagsins og rekstur þess. Fjölmörg erindi hafa borist og höfum við reynt að svara þeim öllum. Ef einhver er að lengja eftir svari biðjum við fólk um að ítreka erindið, mögulega hefur það fallið á milli hjá okkur þar sem í mörg horn er að líta.

Stjórn stefnir á að kalla til félagsfundar í haust, til að fara yfir stöðuna í félaginu og gefa félagsmönnum tækifæri á að taka þátt í lifandi umræðum. Í haust ætlum við einnig að fara í stefnumörkun með félagið okkar eins og rætt var á síðasta aðalfundi en það verður betur kynnt þegar nær dregur.

Ákvörðun var tekin um að auglýsa stöðu yfirþjálfara í Spretti eins og kynnt var með auglýsingu á vefnum. Vilji stjórnar er að auglýsa stöður í félaginu og með því gefa öllum tækifæri til að sækja um. Umsóknarfrestur rann út í vikunni og fyrirhugað er að hefja viðtöl á næstu dögum.

Gulla Jóna og Ágústa hafa tekið þá ákvörðun að hætta að sjá um salinn okkar, Arnarfell, og hafa stjórnar meðlimirnir Hermann og Katla tekið verkefnið að sér tímabundið meðan ný lausn er fundin. Með þeim í utanumhaldi á salnum verða Inga Berg systir Kötlu, Matthildur eiginkona Hermanns og Kristín dóttir Hermanns. Við viljum nota tækifærið og þakka Gullu Jónu og Ágústu fyrir frábær störf síðustu árin og að hafa aðstoðað félagið að koma salnum vel á framfæri. Bestu þakkir fyrir.

Gott samtal hefur verið við bæjarfélögin og vilji til að styrkja það enn frekar.

Tvær kynbótasýningar voru haldnar í Spretti í júní og gengu þær framar björtustu vonum. Þar sem Lilja er í leyfi fengum við Erlu Guðnýju til að taka að sér verkefnið og með henni voru Haukur Hauks og Matthildur auk annara vaskra sjálfboðaliða sem stóðu vaktina og héldu m.a völlum í toppstandi, aðstaða Spretts var til fyrirmyndar sem og veitingar. Á yfirlitinu fyrri vikuna voru eldaðar lambakótilettur og útbúinn matsalur sem tók 70 í sæti í rennunni í Samskipahöll. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Þrjár tíur féllu á brautinni okkar sem og eitt heimsmet, kynbótaknapar og eigendur hrossa voru ánægð með framtak Sprettara og hlakka til að koma aftur að ári liðnu.

Stjórn hefur verið að vinna að siðareglum, hegðunar viðmiðum og aðgerðaráætlun ef upp koma EKKO mál hjá Spretti. EKKO stendur fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Slík mál fara þá í fyrirfram ákveðið ferli og siðanefnd Spretts fær þau til umfjöllunar og skoðunar. Þegar þetta verður tilbúið verður skjalið kynnt á vefnum okkar og svo til umfjöllunar á félagsfundi Spretts í haust.

En að máli málanna….. Sprettur er að halda Landsmót sem hefst eftir helgi. Núna á fimmtudag fer fram knapafundur í Spretti sem æskulýðsnefndin er að skipuleggja fyrir börn, unglinga og ungmenni. Knaparnir sem eru að keppa á Landsmóti fá smá pepp inn í komandi viku og farið verður yfir félagsbúning Spretts svo eitthvað sé nefnt. Þau verða að sjálfsögðu hvött til að mæta í brekkuna og styðja hvert við annað í gegnum þessa einstöku upplifun að fá að keppa á Landsmóti. Við vonumst einnig til að sjá alla foreldra mæta líka og hvetja Team Sprettur á Landsmóti þar sem við erum á mótinu sem eitt lið. Minnum á að HorseDay appið er með allar niðurstöður, stöðulista og ítarefni um Landsmót en einnig á heimasíðu mótsins landsmot.is

Félagsgrillið verður til staðar á Landsmóti en tímasetningin kemur þegar við fáum tímasetta dagskrá fyrir mótið. Félagsgrillið verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur og þar viljum við sjá alla Sprettara sem verða á Landsmótinu koma við og fá sér pylsu eða borgara. Hópreiðin verður til staðar í opnunarathöfninni á fimmtudeginum. Ekki er fjöldatakmörkun en mælst sé til að hvert félag verði ekki með fleiri en 15 hesta/knapa í hópreiðinni. Við í Spretti viljum sérstaklega bjóða velkomin í hópreiðina alla knapa í barna og unglingaflokki sem komast ekki upp í milliriðla að mæta fyrir hönd félagsins.

Vaskir Sprettarar hafa staðið vaktina með Fáksfólki í Víðidalnum liðna viku við að setja upp grindverk, huga að völlunum, setja upp tjaldið og koma að skipulagi á viðburðinum. Við erum öll mjög spennt fyrir næstu viku og erum stolt af Landsmóti Spretts og Fáks í sumar á félagssvæði Fáks. Minnum á að HorseDay appið er með allar niðurstöður, stöðulista og ítarefni um Landsmót en einnig á heimasíðu mótsins www.landsmot.is 

Við óskum keppendum góðs gengis á Landsmótinu í næstu viku og biðlum til allra að njóta augnabliksins. Hlökkum til að fylgjast með ykkur í brautinni. Áfram Sprettur!

Eftri Landsmótið mun undirbúningur fyrir Metamót fara af stað, Theódóra Þorvaldsdóttir hefur tekið að sér að stýra mótinu leiða undirbúning og er með flottan hóp með sér, fyrir áhugasama sem vilja taka þátt í undirbúningnum þá hvetjum við viðkomandi til gefa sig fram, Metamót Spretts er haldið árlega og er eitt af okkar stærstu keppnisviðburðum.

Stjórnin í Spretti fundar öll þriðjudagskvöld en við tökum frí 2 júlí þegar við erum með Landsmót en síðasti fundur fyrir sumarfrí verður 9 júlí. Fyrirhugað er að hittast svo aftur strax í ágúst, fersk eftir sumarfríið.

Sprettur er ríkur af öflugum mannauði sem leggur metnað sinn í að vinna fyrir félagið, sem við sem félagsmenn njótum svo sameiginlega góðs af. Bestu þakkir fyrir alla þá ómetanlegu vinnu sem þið hafið lagt á ykkur í vetur fyrir Sprett.

Kveðja Jónína formaður Spretts