Skip to content

Lífsleikninámskeið

Hestamennska í nútímasamfélagi krefst þess að við sem umsjónaraðilar hestsins tryggjum að hestinum sé kennt að bregðast við óvæntum og erfiðum aðstæðum og þar skiptir góður undirbúningur og jákvæð samskipti mestu máli. Lífsleikni felur í sér víðtæka nálgun á fjölbreyttu viðfangsefni þar sem tekið er mið af aldri og þroska nemandans (hestsins) og nauðsynlegt að þjálfari/umsjónaraðili hestsins hafi grunnþekkingu á skynjun, atferli og viðbrögðum hestsins til þess að geta metið og ráðið farsællega úr erfiðum aðstæðum.

Hestar í nútímasamfélagi þurfa að þola ýmislegt áreiti sem getur leitt til þess að þeir sýni flóttaviðbrögð sem veldur bæði hættu fyrir knapa og hest. Lífsleikninámskeiðið undirbýr knapa og hest að takast á við erfiðar aðstæður með góðum undirbúningi í stjórnuðum aðstæðum þar sem hestarnir eru kynntir fyrir verkefnum og áreiti sem verður stigvaxandi gert erfiðari.

Markmið námskeiðsins er að búa til sjálfsöruggari hesta og skilningsríka knapa í því aukna áreiti sem hestamennska býr við í dag. Námskeiðið hentar knöpum eldri en 14 ára og mælt er með því að hesturinn sé ekki of ungur eða lítið taminn (a.m.k. 5 vetra og 5-6 mánaða taminn) svo ekki sé farið fram úr lærdómshraða hans á námskeiðinu. Námskeiðið hentar öllum knöpum, vönum og óvanari þar sem allir geta bætt góðum vinnubrögðum í verkfæratöskuna sína sem fólk getur svo tileinkað sér með fleiri hesta. Einnig þurfa hestarnir ekki endilega að vera sjónhræddir eða viðkvæmir til að hafa gott að þessu námskeiði, heldur myndu allir hestar hafa gott að því að vera leiknir í lífinu.

Hver og einn kemur með eigin hest og búnað. 12-16 nemendur komast að á námskeiðinu (lágmark 8x manns), 4x saman í verklegum tímum. Nemendur mega einnig taka reiðtygi með sér ef þeir vilja kynna hestinn fyrir verkefnunum á baki. Leitast er við að búa til góðar aðstæður fyrir hest og knapa til að læra en einnig gefa tækifæri til að líkja eftir raunaðstæðum sem gætu komið upp.

Námskeiðið verður kennt helgina 3.-5.mars í Húsasmiðjuhöll. Kennari verður Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir, reiðkennari.

Uppbygging námskeiðsins er eftirfarandi :
– Föstudagur 3.mars : Sýnikennsla og fyrirlestur í Húsasmiðjuhöll kl.20-22.
– Laugardagur 4.mars : 2x verklegir tímar, annar fyrir hádegi og hinn eftir hádegi. Í Húsasmiðjuhöll, tímasetningar á bilinu 9-16.
– Sunnudagur 5.mars : 2x verklegir tímar, annar fyrir hádegi og hinn eftir hádegi. Í Húsasmiðjuhöll, tímasetningar á bilinu 9-16.

Verð fyrir námskeiðið er 34.000kr. Skráning er hafin á sportabler.com