Ungir Sprettarar fóru í ævintýraferð!

Dagana 27.–30. nóvember sl. fóru ungir Sprettarar í ógleymanlega ferð á hina stórglæsilegu Sweden International Horse Show, sem haldin er ár hvert í Stokkhólmi í Svíþjóð. Samtals taldi hópurinn 44 Sprettara en þetta er í annað sinn sem Æskulýðsnefnd félagsins stendur fyrir slíkri ferð.

Sýningin er ein sú glæsilegasta í Evrópu og dregur að sér bæði keppendur og áhorfendur hvaðanæva að. Þar er sýnt allt það besta sem hestaiðkun hefur upp á bjóða, hvort sem er mismunandi keppnisgreinar eða fjölbreytt sýningaratriði.
Áhorfendur fengu að njóta keppnisgreina á borð við hindrunarstökk og dressúr á Grand Prix stigi og einnig vagnakeppni á hæsta stigi auk fjölda sýningaratriða sem sýndu hæfileika mismunandi hestakynja – sem sum hver voru ótrúleg! Að sjálfsögðu lét íslenski hesturinn ekki sitt eftir liggja og var boðið upp á keppni í tölti sem vakti mikla athygli áhorfenda.
Æskulýðsnefnd sænska íslandshestasambandsins (SIF) bauð ungum Spretturum í heimsókn þar sem þau hittu unga sænska knapa. Farið var í ýmsa skemmtilega leiki, þar á meðal limbó, þar sem ungir Sprettarar sýndu fimi sína og fóru örugglega með sigur af hólmi.

Ungir Sprettarar hafa undanfarið ár staðið í fjáröflunum til að gera ferðina að veruleika. Þar má nefna kleinusölu, dósasöfnun og vaktir í veitingasölu á viðburðum félagsins.

Það spilar stórt hlutverk í félagslegu starfi hestaíþróttarinnar að ungir knapar hafa sameiginlegt markmið til að stefna að og gera eitthvað saman í íþrótt sem er annars einstaklingsíþrótt – og það hefur verið að ósk ungra Sprettara að boðið sé upp á fleiri félagslega hittinga án hests svo þau hafi tækifæri til að efla tengslin sín á milli.

Ferðin var mikil upplifun fyrir unga Sprettara og reyndist bæði fræðandi og ótrúlega skemmtileg. Sýningin opnaði augu ungra Sprettara enn frekar fyrir fjölbreytileika hestamennskunnar á alþjóðavísu auk þess sem hún styrkti tengslin þeirra á milli, efldi sjálfstraust og félagslega hæfni þeirra.

Ungu Sprettararnir komu heim fullir innblásturs og gleði eftir að hafa upplifað einn stærsta og glæsilegasta hestaviðburð Evrópu saman.
Fleiri myndir frá ferðinni má sjá á fb síðu hmf Spretts.
Scroll to Top