Boðið verður upp á TREC námskeið fyrir börn og fullorðna. Kennt verður í Húsasmiðjuhöll milli kl.16:30-18:00, 45mín hver tími. Tveir hópar í boði, yngri og eldri. 4-5 í hóp. Samtals 4 skipti. Í kennslunni verður stuðst við TREC keppnisgreinina sem hefur notið mikilla vinsælda erlendis.
Kennt verður eftirfarandi daga:
Fimmtudaginn 3.apríl
Fimmtudaginn 10.apríl
Miðvikudaginn 23.apríl
Miðvikudaginn 30.apríl
TREC er skemmtileg grein fyrir alla knapa. Kennslunni er stillt upp eftir getu og reynslu þeirra sem taka þátt.
TREC er frábær fyrir alhliða þjálfun hesta og knapa. Hún skilar knapanum betri og samvinnufúsari hest og styrkir til muna sambandið milli manns og hests.
Það besta við TREC er að það hentar fyrir langflestar hestgerðir. Það er bæði hægt að mæta með keppnishestinn sinn úr öðrum greinum eða útreiðahestinn sinn því ekki er gerð nein krafa um reisingu eða fótaburð. Til að ná sem bestum árangri, sérstaklega á stuttu námskeiði sem þessu, þá er best að hesturinn sé frá upphafi rólegur og spennulaus.
Til að komast í gegnum þrautabraut þarf knapinn að vera búinn að læra að þekkja hestinn sinn mjög vel og samspil þeirra að vera gott. Á námskeiðinu verður því farið í ýmis grunnatriði sem eru grundvöllur fyrir því að leysa af hendi þrautirnar, s.s. að fá hestinn spennulausan þ.a. hann bíði rólegur eftir ábendingum og fari aðeins af stað þegar hann er beðinn um það. Við kennum þeim að bakka og víkja og að teymast í hendi á feti og brokki, bæði við hlið og á eftir knapanum. Mestum tíma verður þó eytt í að spreyta sig við þrautirnar sjálfar enda finnst flestum það skemmtilegasti hluti námskeiðsins, bæði knöpum og hestum!
Kennari á námskeiðinu er Birna Tryggvadóttir, menntaður reiðkennari og tamningarmaður frá Háskólanum á Hólum.
Skráning er opinn og fer fram á abler.io/shop/hfsprettur
Verð fyrir yngri flokka er 12.000kr
Verð fyrir fullorðna er 19.000kr