Opnað hefur verið fyrir skráningu á gæðingamót Spretts og úrtöku fyrir LM 2018. Gæðingamót Spretts og fyrri umferð úrtöku fyrir Landsmót verður haldið 2. – 3. júní og seinni úrtakan fer fram 12.– 13. júní. Skráning fer fram dagana 22. maí til miðnættis 29. maí.
Fyrirkomulagið er þannig að allir skrá sig í báðar umferðir. Ef knapi ákveður að sleppa annarri hvorri umferðinni þarf viðkomandi að afskrá með því að senda tölvupóst á sp*********@***il.com eða senda sms í símanúmer 888-4050. Eitt gjald er fyrir hverja skráningu óháð því hvort knapi taki einungis þátt í gæðingamóti Spretts og fyrri úrtöku eða seinni úrtöku eða taki þátt í báðum umferðum. Skráningagjöld eru sem hér segir:
A flokkur, B flokkur og tölt T1 = 6000 kr.
Börn, unglingar og ungmenni = 4500 kr.
Skeið – 100m, 150m og 250m = 3000 kr.
Til að auðvelda tölvuvinnu á mótinu biðjum við keppendur vinsamlegast að haka við „gæðingaflokkur 1“ og „gæðingaflokkur 2“ í þeim flokki sem þeir skrá. T.d. ef keppandi ætlar að skrá hest í A flokk þá hakar viðkomandi bæði í A flokkur gæðingaflokkur 1 og A flokkur gæðingaflokkur 2.
Þeir sem ætla að skrá sig í áhugamannaflokk tilkynna það með því að senda tölvupóst á sp*********@***il.com.
Á gæðingamótinu verður boðið uppá sérstakan flokk fyrir vana polla. Pollum er ekki sætaraðað en allir fá þátttökuverðlaun. Pollum er ekki heimilt að mæta á stóðhestum. Pollar skrá sig í gengum Sportfeng en ekkert skráningagjald er í pollaflokki.
Glæsileg verðlaun verða í öllum greinum og gæðingur mótsins verður valinn. Þar að auki verður Svansstyttan veitt, en hún er veitt til heiðurs Svani Halldórssyni, stofnfélaga Gusts og síðar Spretts. Svanur hefur ávallt lagt mikið upp úr því að vera prúðbúinn, snyrtilegur og á vel hirtum hesti. Svansstyttan er veitt Sprettsfélaga sem klæðist félagsbúningi Spretts á mótum og þykir ávallt vera til fyrirmyndar hvað varðar prúðmannlega reiðmennsku, klæðaburð og hirðingu hests, utan vallar sem innan.
Áhugamenn í A og B flokk ríða með reyndari knöpum en áhugamenn ríða svo sérstök úrslit sunnudaginn 3. júní. Eins og áður kom fram þurfa þeir sem keppa í áhugamannaflokk að tilkynna það með því að senda tölvupóst á sp*********@***il.com.
Vinsamlega athugið að í gæðinakeppni þarf hesturinn að vera í eigu Sprettsfélaga. Keppendur í yngri flokkum þurfa jafnframt að vera Sprettsfélagar. Mótið er ætlað skuldlausum félagsmönnum.
Keppendur eru vinsamlega beðnir að skoða reglur LH sem gilda um þátttöku í gæðingakeppni.
Töltkeppni T1 og skeiðgreinar eru opnar öllum.
Fyrirspurnir og/eða aðstoð við skráingu fer fram í gegnum tölvupóstfangið sp*********@***il.com eða í síma 888-4050.
Viljum einnig benda á að það er eingöngu hægt að greiða með korti.