Samskipadeild – Áhugamannadeild Spretts 2025 lokið

Keppni í Devold tölti í Samskipadeildinni – Áhugamannadeild Spretts fór fram í Samskipahöllinni á föstudaginn síðastliðinn.

Í B-úrslitum voru það Darri Gunnarsson og Draumur frá Breiðsstöðum sem voru hlutskarpastir. Það þurfti sætaröðun dómara til að skera úr á milli þeirra og svo Herdísar Einarsdóttur og Grifflu frá Grafarkoti. Einkunn beggja parana 6,67.

Darri Gunnarsson og Draumur frá Breiðsstöðum sigruðu B-úrslit í Devold tölti
Darri Gunnarsson og Draumur frá Breiðsstöðum sigruðu B-úrslit í Devold tölti

Í A-úrslitunum voru það Þórunn Kristjánsdóttir og hryssan Fluga frá Garðabæ sem komu, sáu og sigruðu. Glæsileg sýning og einkunn þeirra 7,11. Annar var Gunnar Már Þórðarson og hestur hans Júpíter frá Votumýri 2 og þriðju Hrönn Ásmundsdóttir og Rafn frá Melabergi.

Þórunn Kristjánsdóttir og Fluga frá Garðabæ sigruðu A úrslit.
Þórunn Kristjánsdóttir og Fluga frá Garðabæ sigruðu A úrslit.

Liðaplattann í Devold tölti hlaut liðið Pula-Votamýri-Hofsstaðir, enda með þrjá knapa í A-úrslitunum

Pula-Votamýri-Hofsstaðir stigahæsta liðið í tölti
Pula-Votamýri-Hofsstaðir stigahæsta liðið í tölti

 

Á laugardag fór svo fram Gæðingaskeið í boði Útfarastofu Íslands. Það voru 100 sprettir farnir á frábærum velli í Víðidalnum. Að lokum voru það Árni Geir Norðdahl Eyþórsson og Gnýr frá Gunnarsholti sem stóðu uppi sem sigurvegarar með heildareinkunnina 6,88. Í öðru sæti var Theódóra Þorvaldsdóttir og Urla frá Pulu og þá Sigurbjörn Viktorsson og Vordís frá Vatnsenda.

Árni Geir Norðdahl Eyþórsson og Gnýr frá Gunnarsholti
Árni Geir Norðdahl Eyþórsson og Gnýr frá Gunnarsholti
Verðlaun veitt fyrir efstu 12 keppendur í gæðingaskeiði á lokahófinu seinna um kvöldið
Verðlaun veitt fyrir efstu 12 keppendur í gæðingaskeiði á lokahófinu seinna um kvöldið

Stigahæsta liðið í gæðingaskeiði í boði Útfararstofu Íslands var lið Nýsmíði

Kristinn K Garðarsson og Sigurbjörn Viktorsson tóku á móti liðaplattanum fyrir gæðingaskeiðið
Kristinn K Garðarsson og Sigurbjörn Viktorsson tóku á móti liðaplattanum fyrir gæðingaskeiðið

Sameiginlegt lokahóf Áhugamannadeildar og 1. Deildar var svo haldið á laugardagskvöldið í Arnarfelli, glæsilegum veislusal Samskipahallarinnar. Þar voru viðurkenningar veittar fyrir árangur vetrarins og svo skemmti mannskapurinn sér fram á nótt.

Í þriðja sæti í einstaklingskeppninni með  24,5 stig var Sveinbjörn Bragason
Í öðru sæti var Erla Guðný Gylfadóttir með 25 stig
Sigurvegari Áhugamannadeildarinnar árið 2025 var Sigurbjörn Viktorsson. Sigurbjörn átti góða frammistöðu heilt yfir keppnistímabilið og var vel að sigrinum kominn og hlaut 32,5 stig.

Þau fengu glæsilegar verðlaunastyttur frá Sign, gjafapoka frá Líflandi og gjafabréf frá Horseday. Auk þess sem Sigurbjörn fékk ársáskrift að Eiðfaxa TV.

Sveinbjörn Bragason, Erla Guðný Gylfadóttir og Sigurbjörn Viktorsson
Sveinbjörn Bragason, Erla Guðný Gylfadóttir og Sigurbjörn Viktorsson

Stigahæsta lið vetrarins var liðið Pula-Votamýri-Hofsstaðir með 532 stig. Þar á eftir var lið Stafholthesta með 496,5 stig og þá lið Nýsmíði með 478 stig.

Stigahæsta liðið fékk glæsilegan verðlaunagrip frá Sign og hvert og eitt gjafapoka frá Líflandi

 

Forsvarsmenn Eiðfaxi TV, sem sýndu frá öllum mótum deildarinnar, drógu út tvo heppna keppendur sem fengu miða á heimsmeitaramótið sem fer fram í Sviss í sumar. Voru það Jóhann Tómas Egilsson og Harpa Kristjánsdóttir sem duttu í lukkupottinn.

Harpa Kristjánsdóttir, Jóhann Tómas Egilsson og Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri Eiðfaxa TV
Harpa Kristjánsdóttir, Jóhann Tómas Egilsson og Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri Eiðfaxa TV

Sjálfboðaliðar deildanna voru heiðraðir. Án öflugra sjálfboðaliða yrði svona stór viðburður ekki að veruleika. Við þökkum öllum sjálfboðaliðum sem komu að því að gera Áhugamannadeildina 2025 svona frábæra kærlega fyrir.

Sjálfboðaliðar
Sjálfboðaliðar

Önnur verðlaun sem veitt voru um kvöldið

Skemmtilegasta liðið – lið Spesíunnar fengu hvert og eitt gjafabréf frá Stalli
Þjálfari ársins – Siguroddur Pétursson þjálfari liðs Bifreiðaverkstæði Bödda og Borgarerks, fékk gjafapoka frá Líflandi
Skemmtilegasti knapinn – Gunnar Eyjólfsson fékk gjafapoka frá Fóðurblöndunni
Faglegasta sýningin í mótaröðinni, Gunnar Már Þórðarson og Júpíter frá Votumýri í slaktaumatölti – fékk gjafabréf frá Brokk, gjafabréf frá Horseday ásamt gjafapoka frá Fóðrublöndunni.

Sjáumst að ári, kveðja Áhugamannadeildarnefndin

Scroll to Top