Hæfileikamótun LH er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára, fædd 2009-2012
Þróun Hæfileikamótunar LH hefur verið mikil undanfarin ár. Á þessu starfsári verður boðið upp á tvo hópa líkt og undanfarin ár.
Þetta er gert til þess að veita sem flestum efnilegum knöpum tækifæri til þess að komast í umhverfi hæfileikamótunar, efla starfið og á sama tíma að veita hverjum knapa enn meiri aðstoð en áður.
Vetrarstarfið hefst á ferð norður að Háskólanum á Hólum í Hjaltadal í nóvember þar sem nemendur fá innsýn í námið á Hólum, sýnikennslu og reiðkennslu hjá kennurum við skólann ásamt því að fá helgi til þess að kynnast og hrista saman hópinn.
Eftir áramót eru tvær vinnuhelgar í kennslu á eigin hestum undir umsjón yfirþjálfara auk bóklegrar kennslu í formi fyrirlestra á tímabilinu. Þar að auki taka iðkendur hæfileikamótunar þátt í viðburðum á vegum landsliðsins í hestaíþróttum.
Í hæfileikamótun LH eru ungir og efnilegir framtíðarknapar Íslands. Á liðnum keppnisárum hafa knapar sem taka þátt í hæfileikamótun LH staðið framarlega í öllum greinum á stærstu mótum ársins í unglingaflokki.
Tilvist hæfileikamótunar er orðin að stórum þætti í afreksmálum Landssambands hestamannafélaga. Það er mjög mikilvægt að aðstoða unga afreksknapa við að verða betri þjálfarar og reiðmenn en einnig að gefa þeim tækifæri til að kynnast landsliðsumhverfinu og verða að flottum fyrirmyndum fyrir aðra.
Tekið er á móti umsóknum í hæfileikamótun LH 2025-2026 á vef LH
Umsóknarfrestur er 22. október 2025