Skip to content

Nýárspistill Æskulýðsnefndar og Barna- & unglingaráðs

Margt og mikið hefur verið í gangi hjá bæði Barna- og unglingaráði sem og Æskulýðsnefndar Spretts haust og vetur 2024 sem okkur langar til að deila með félagsmönnum. Við erum svo heppin að við eigum stóran og flottan hóp af metnaðarfullum og skemmtilegum ungum Spretturum sem standa fyrir ýmsum viðburðum og hittingum með hjálp öflugrar Æskulýðsnefndar.

Barna- og unglingaráð mun taka aftur til starfa í byrjun janúar eftir pásu í desember. Það er laust pláss í ráðinu fyrir áhugasamt barn eða ungling. Sjá nánar hér: https://sprettur.is/laust-saeti-i-barna-og-unglingaradi-spretts/

Mörg verkefni liggja fyrir hjá ráðinu, en m.a. hefur verið stefnt á utanlandsferð ungra Sprettara á árinu 2025, unnið er að styrkjarumsókn vegna verkefnis fyrir yngri flokka, ýmsar hugmyndir eru uppi um fjáraflanir, rætt hefur um ýmis tækjakaup og stefnt er að halda „æfinga-kynbótasýningu“ með vorinu. 

Hestaklúbburinn tók til starfa á haustmánuðum, sem er samvinnuverkefni Æskulýðsnefndar og reiðkennaranna Sigrúnar Sigurðardóttur og Þórdísar Gylfadóttur. Þar er blandað saman félagslegum hittingum, s.s. spilakvöldi, bíó, bling-námskeiði ásamt því að fara í heimsóknir á tamningastöðvar og til dýralæknis. 

Í nóvember héldum við austur fyrir fjall í heimsókn til Árna Björns og Sylvíu á Kvistum. Þar fengum við höfðinglegar móttökur, fengum að skoða hestana í húsinu, þ.á.m. Íslandsmeistararnn Kastaníu frá Kvistum, uppáhalds hestinn hans Árna, skeiðdrottninguna Korku frá Steinnesi, ásamt mörgum fleirum góðum hestum. Lagt var á góðhesta og farið yfir helstu atriði í þjálfun með ungum Spretturum þar sem Sylvía og Árni deildu með okkur mikilvægum atriðum. Eftir veitingar og spjall við afreksknapana var skorað á þau í skotbolta! Það var hart barist en mikið hlegið og mikið stuð!  Á heimleiðinni var svo stoppað í pizzahlaðborði á Ölverki í Hveragerði. 

Björgvin Þórisson dýralæknir tók á móti hópnum á vinnustofu sinni á félagssvæði Spretts í Hamraenda. Þar fengu krakkarnir að skyggnast inn í heim dýralæknisins og óhætt að segja að upplifunin hafi verið eftirminnileg þar sem þau lentu í miðju útkalli vegna hrossasóttar, allt fór þó vel að lokum.

Félagarnir og Sprettararnir Þorvaldur Árni og Ævar Örn buðu krakkana velkomna í hesthúsaheimsókn og sögðu þeim frá störfum sínum sem tamningamenn og reiðkennarar. Rætt var um keppni og þjálfun og mikilvægi þess að hafa gaman af hlutunum.

Litlu-jólin voru svo haldin hátíðleg um miðjan desember. Boðið var upp á piparkökur og heitt súkkulaði, horft á jólamynd, spilað, spjallað og að lokum farið í pakkaleik. Skemmtileg kvöldstund og jólahefð sem vonandi er komin til að vera hjá ungum Spretturum. 

Lokaslútt hestaklúbbsins árið 2024 var svo haldið í Samskipahöllinni í lok desember þar sem sett var upp Hobby Horse keppni. Mjög skemmtilegt – en næst verður skorað á fullorðna að taka þátt líka! Að lokinni Hobby Horse keppni var skipt í lið og farið í boðhlaup, hjólbörukeppni og ýmislegt fleira! 

Hestaklúbburinn mun taka til starfa að nýju í lok janúar með ýmsum skemmtilegum hittingum og viðburðum, sem barna– & unglingaráð mun leggja til í samstarfi við yfirþjálfara og Æskulýðsnefnd. 

Við þökkum kærlega öllu því góða fólki sem tók svona vel á móti ungum Spretturum og gaf tíma sinn til æskunnar, kærar þakkir!
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla – við hlökkum til ársins 2025 með ungum Spretturum! 

p.s. fjölmargar myndir voru settar með fréttinni á facebook síðu félagsins – hestamannafélagið Sprettur – kíkið endilega á myndir frá starfinu þar!