Hér má sjá nánari upplýsingar um þau námskeið sem hefjast í lok desember og janúar. Skráning fyrir námskeiðin opnar kl.12:00 á morgun, föstudaginn 19.desember á abler.io www.abler.io/shop/hfsprettur
Einka- og paratímar með Róberti Petersen
Reiðkennarinn Róbert Petersen býður upp á einka – og paratíma í Samskipahöllinni. Kennslan er sérsniðin að þörfum og óskum hvers og eins nemanda og hesti.
Kennt verður á þriðjudögum í Samskipahöllinni. Kennsla hefst þriðjudaginn 13.janúar og eru tímasetningar í boði milli kl.15:50-19:30. Kennt er í 40mín í einkatíma og 60mín í paratíma
Kennslu lýkur 17.febrúar, samtals 6 skipti.
Verð er 67.000kr fyrir einkatíma.
Verð er 53.500kr fyrir paratíma.
Knapaþjálfun með Bergrúnu Ingólfsdóttur
Námskeiðið er sett þannig upp að það byrjar á fyrirlestri, sem er um klukkustundar langur. Þar verður raðað niður í reiðtíma.
Hver knapi fer í svokallaða líkamsstöðugreiningu þar sem viðkomandi er skoðaður án hests. Horft er í líkamsstöðu, vöðvasamræmi knapa, hreyfifærni liða og annað sem getur mögulega haft áhrif á ásetu knapa og líkamsstöðu dags daglega.
Þessu eru svo hvoru tveggja fylgt eftir með tveimur reiðtímum – einkatímum, sem er hvor fyrir sig um 40mín. Þar sem áherslan er líkamsbeyting knapans og stjórn hans á hestinum.
Að auki er einn laufléttur æfingartími, ca 45 mín., þar sem farið er í styrktarþjálfun og teygjur sem mér finnst eiga erindi við alla knapa. Farið í æfingatækni sem getur nýst viðkomandi í ræktinni eða við hreyfingu dags daglega.
Fjöldi nemenda á einu námskeiði miðast við 8-10 knapa. Námskeiðið hentar öllum knöpum, allt frá byrjendum til afreksknapa.
Reiðnámskeið með Sigrúnu Sigurðardóttur
Vinsælu námskeiðin hennar Sigrúnar Sigurðardóttur hefjast í janúar. Námskeiðin eru almenn reiðnámskeið fyrir fullorðna sem vilja styrkja leiðtogahlutverk sitt, öðlast betri færni í samskiptum við hestinn sinn og læra að skilja hestinn betur.
Þetta námskeið er frábært fyrir einstaklinga sem til dæmis vilja auka kjark og þor, byrja aftur eftir hlé í hestamennsku eða einfaldlega byrja með nýja hesta.
Námskeiðið hefst 19.janúar, samtals 8 skipti og lýkur námskeiðinu 9.mars.
Kennt verður á mánudögum. Í boði eru 2 manna hópar, paratímar. Tímasetningar sem eru í boði eru á milli 15:00 og 18:20.
Kennt verður í Samskipahöllinni, hólfi 3.
Verð fyrir 2 manna hóp er 63.000kr á einstakling
Pollanámskeið fyrir yngstu Sprettarana!
Frábæru pollanámskeiðin hjá Hrafnhildi Blöndahl hefjast laugardaginn 24.janúar. Kennt verður í Húsasmiðjuhöllinni, 40mín hver tími, samtals 6 skipti. Síðasti tíminn laugardaginn 28.febrúar. Tímasetningar í boði á milli kl.10-13.
Nokkrir hópar í boði:
– byrjendur og minna vanir yngri knapar (knapar sem eru teymdir og fara mest fet en einnig aðeins upp á gang)
– minna vanir eldri knapar (stjórna sjálf, fara mest fet en líka aðeins upp á gang)
– meira vanir allur aldur (ríða sjálf, fet tölt brokk)
– mjög mikið vön (ríða sjálf, fet tölt brokk stökk)
Námskeiðin eru niðurgreidd af Æskulýðsnefnd Spretts, hvetjum við alla polla til að skrá sig. Mikið stuð og mikið gaman! Verð er 5000kr. Hægt er að nýta frístundastyrkinn.
Skráning á öll námskeiðin hefst föstudaginn 19.desember kl.12:00 og fer fram á abler.io/shop/hfsprettur
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á th*****@******ur.is
