Um helgina fór fram 64 landsþing LH í Borgarnesi. Sprettur átti 27 þingfulltrúa en stjórn ásamt starfsfólki mættu á þingið fyrir hönd félagsins en einnig var rætt við flesta nefndarformenn, fyrrum formenn Spretts, aðila sem starfa í nefndum á vegum Landssambandsins ásamt virkum sjálfboðaliðum sem starfa fyrir félagi. Þingið kom upp á sama tíma og vetrarfrí er í Kópavogi og Garðabæ af þeim sökum áttu ekki allir heimagengt sem hefðu viljað sækja þingið.
Á föstudaginn hlaut Sprettur hin eftirsótta æskulýðsbikar Landssamband hestamannafélaga sem er afhentur því félagi sem skarað hefur fram í æskulýðsstarfi á árinu. Valið byggði á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna sem sendar eru inn að hausti. Æskulýðsnefnd LH hefur það verkefni að velja handhafa bikarsins. Þetta er ein æðsta viðurkenning sem hægt er að hlotnast fyrir æskulýðsstarf en stjórn Spretts, yfirþjálfari og æskulýðsnefnd leggja mikinn metnað í starfið í Spretti sé metnaðarfullt því þarna er framtíðar grasrótin í Spretti og því eitt það mikilvægasta í starfi Spretts. Þetta mikla og verðmæta starf sem yfirþjálfari hefur unnið með æskulýðsnefnd gagnvart grasrótinni er mikill fjársjóður fyrir Sprett og bar textinn sem lesinn var upp þegar bikarinn var veittur þess merki. Er það von okkar í Spretti að vinnan sem er unnin hjá okkur geti orðið leiðarljós fyrir önnur félög í sínu starfi. Sjá frétt á vef LH um skýrsluna frá Spretti https://www.lhhestar.is/is/frettir/sprettur-hlytur-aeskulydsbikarinn.
Á föstudeginum var einnig kynnt niðurstaða Landsmótsins og farið yfir verkefnið í heild. Formaður Spretts þakkaði í lokin þeim fjölda sjálfboðaliða sem komu að mótinu fyrir þeirra óeigingjörnu vinnu sem var lykillinn að góðu móti. Einnig þakkaði Sprettur Fáki fyrir góða samvinnu og LH ásamt LM fyrir það traust sem Fáki og Spretti var veitt með að leysa verkefnið saman.
Eftir góðar kynningar var þingfulltrúum skipt niður í nefndir þar sem farið var yfir 40 þingsskjöl í sex nefndum. Sprettur átti sjö fulltrúa í allsherjarnefnd, sjö fulltrúa í ferða og umhverfisnefndnefnd, tvo fulltrúa í fjárlaganefnd, sex fulltrúa í keppnisnefnd og fjóra fulltrúa í æskulýðsnefnd. Nefndarstörfin stóðu yfir fram að kvöldmat en keppnisnefndin kláraði rúmlega 21:00 á föstudagskvöldinu.
Sprettur fór með tillögu inn á þing sem fjallaði um losun á taði og kostnað því tengdu en það er stórt hagsmunamál fyrir alla hestamenn. Fulltrúar frá sjálfbærninefnd Spretts fylgdu því máli eftir í ferða og umhverfisnefnd á þinginu. Góðar umræður voru um tillöguna og ljóst er að fleiri hestamannafélög eru að fást við þennan vanda vítt og breitt um landið. Var mikil samstaða á þinginu um málið.
Á laugardaginn var farið yfir allar tillögur og kosið um þær. Að því loknu voru kynnt fyrir þingfulltrúum þrjú mál, í fyrsta lagi verkefni stjórnar sem snýr að agamálum og siðareglum, í öðru lagi var farið yfir hestavelferð og hvernig þau mál hafa þróast í samfélagsumræðunni. Að lokum var farið yfir reiðvegamál.
Eftir kaffi hófst kynning og kosning formanns, stjórnar og varastjórnar LH. Linda Björk Gunnlaugsdóttir fyrrum formaður Spretts og nú LH hlaut yfirburðar kosningu til formanns og er hún fyrsta konan til að gegna því hlutverki. Við Sprettarar erum stoltir af nýjum formanni landssamtakanna og óskum henni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Sigurbjörn Eiríksson, stjórnarmaður í Spretti bauð sig fram í varastjórn LH ásamt 7 öðrum fulltrúum annara hestamannafélaga. Sigurbjörn hlaut einnig mjög góða kosningu og fékk flest atkvæði og er hann því fyrsti varamaður inn í stjórn LH.
Þingfulltrúar Spretts voru samheldinn og samstilltur hópur enda hafa flestir verið að vinna saman undanfarna mánuði og ár í fjölbreyttum störfum fyrir félagið. Sprettur greiddi þinggjöld fyrir alla fulltrúa og safnast var saman í bíla fram og til baka. Þeir sem völdu að gista höfðu val um slíkt en Sprettur tók ekki þátt í þeim kostnaði. Hér að neðan má sjá nafnalista af þeim þingfulltrúum sem sóttu þingið fyrir hönd Spretts.
Jónína Björk Vilhjálmsdóttir (formaður), Katla Gísladóttir (varaformaður), Lárus Sindri Lárusson (gjaldkeri), Haraldur Pétursson (ritari), Davíð Áskelsson (stjórn), Hermann Vilmundarson (stjórn), Sigurbjörn Eiríksson (stjórn), Þórdís Anna Gylfadóttir (yfirþjálfari), Þórunn Helga Sigurðardóttir (framkvæmdastjóri), Jón Magnússon (reiðveganefnd), Halldór Halldórsson (reiðveganefnd), Selma Rut Gestsdóttir (öryggisnefnd), Haukur Hauksson (innviðanefnd), Theodóra Þorvaldsdóttir (mótanefnd), Sigríður Helga Sigurðardóttir (mótanefnd), Sigríður Eiríksdóttir (mótanefnd), Berglind Margo (fræðslunefnd), Linda Björk Gunnlaugsdóttir (fyrrum formaður), Petra Björk Mogensen, Árni Geir Sigurbjörnsson (innviðanefnd), Ásrún Óladóttir (sjálfbærninefnd), Gunnar Már Þórðarson (fráfarandi stjórn), Jóhann Ólafsson (ráðgjafi), Sigurður Ágústsson (nefnd LH), Sigurður Tyrfingsson (nefnd LH), Þórunn Hannesdóttir (æskulýðsnefnd), Sveinbjörn Sveinbjörnsson (fyrrum formaður). Ketill Björnsson var einnig á þinginu sem fulltrúi HÍDÍ.
Stjórn þakkar kærlega fyrir þann tíma sem þingfulltrúar lögðu í verkefnið og þeirra mikilvæga framlag til samtalsins á þinginu. Enn og aftur finnur maður og sér hversu virkilega rík við erum af þeim mikla mannauði sem býr í hestamannafélaginu Spretti.
Næsta þing fer fram 2026 á Akureyri.