Skip to content

Kynningarfundur sjálfboðaliða á landsmóti 2024

Miðvikudaginn 15. maí kl. 20:00 í veislusal Samskipahallarinnar í Spretti.

Við hestamenn elskum að hitta aðra hestamenn á góðu mannamóti, hestamannamóti, horfa á knapa
á öllum aldri sýna gæðinga sína, deila sögum, rifja upp sögur, grilla saman, skála, bollaleggja ferðir
sumarsins og rökræða fram og til baka um frambærilegustu stóðhestana, stjörnurnar sem verða til
og allt þar á milli.


Stórviðburðar eins og Landsmóts hestamanna er beðið með eftirvæntingu og það eru margir ólíkir
hópar fólks sem bíða og vilja taka þátt á sinn hátt. Sumir ætla að horfa, aðrir keppa, enn aðrir vinna í
markaðstjaldinu, einhverjir munu selja þér kaffibolla og kökusneið, enn aðrir munu dæma eða rita og
taka þannig þátt í mögnuðum viðburði sem snýst um hestaíþróttir og félagslegar tengingar okkar í
“stórfjölskyldunni” sem samfélag hestamanna er. Við fáum líka erlenda gesti sem gaman er að hitta
og kynnast þeirra hestamennsku.


Einn mikilvægasti hópurinn sem kemur á Landsmót er sjálfboðaliðar. Þeir gefa mótinu af tíma sínum,
fá frítt inn á mótið og fatnað til að vera í og njóta þess að vera hluti af samstilltum, sterkum hópi sem
heldur einn stærsta fjölskyldu- og íþróttaviðburð ársins hér á landi.


Landsmótið í Reykjavík vill bjóða þennan hóp velkominn til leiks og um leið til fundar
miðvikudaginn 15. maí kl. 20:00 í Samskipahöllinni í Spretti.

Þar verða léttar veitingar í boði, upplýsingagjöf um viðburðinn framundan og hægt verður að skrá sig
sem sjálfboðaliða í hin ýmsu hlutverk og verkefni.

Hlökkum til þess að sjá sem flesta sem hafa áhuga á því að taka þátt á Landsmóti Spretts og Fáks.