Skip to content

Heillaóskir frá Garðabæ

Sveitarfélagið Garðabær hefur sent Spretturum heillaóskir með vel heppnað Landsmót hestamanna í sumar, sem haldið var sameiginlega með hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík. 

Kveðjan kemur frá íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar sem óskar stjórn, starfsfólki og sjálfboðaliðum Spretts til hamingju með vel heppnað Landsmót hestamanna 2024. 

Bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson, mætti á Landsmót og veitti verðlaun í A-úrslitum í ungmennaflokki á sunnudegi. Björg Fenger forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar mætti einnig á Landsmót hestamanna og tók þátt í setningarathöfn Landsmóts á fimmtudegi. 

Þess má geta að Garðabær styrkti mótið fjárhagslega, sem og Kópavogur. 

Formaður og varaformaður Spretts ásamt yfirþjálfara tóku á móti bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar, sýndu þeim um mótssvæðið og sögðu frá viðburðinum á ítarlegan hátt. 

Þeim þótti báðum mikið til koma og voru ánægð með þátttöku Spretts á mótinu, hvort sem það var á keppnisvellinum eða við skipulagningu og framkvæmd mótsins. Með komu þeirra á mótið gafst stjórn Spretts tækifæri til segja og sýna enn betur frá íþróttinni, sýna þeim keppni á heimsmælikvarða og mikilvægi hennar sem mun vonandi nýtast áfram í góðum samskiptum og tengslum við sveitarfélögin.

Á myndinni má sjá bæjarstjóra Garðabæjar Almar Guðmundsson, fimmti frá hægri, veita verðlaun í A-úrslitum í ungmennaflokki á Landsmóti hestamanna. Með honum á myndinni eru, t.f.h. Linda B. Gunnlaugsdóttir verðlaunadama og fyrrverandi formaður Spretts, Hjörtur Bergstað formaður Fáks og Landsmóts 2024, Jónína Björk Vilhjálmsdóttir formaður Spretts og Guðni Halldórsson formaður LH. Almari á hægri hönd er Svanhvít Kristjánsdóttir sem veitti Öder bikarinn. Lengst til vinstri á myndinni er Sprettarinn Guðný Dís Jónsdóttir sem hreppti 3.sæti í Ungmennaflokki en Sigurður Baldur Ríkharðsson, Sprettari, reið einnig til úrslita og endaði í 8.sæti.