Hannesi þakkað fyrir góð félagsstörf

Hannes Hjartarson hefur verið formaður kynbótanefndar Spetts til margra ára en hefur nú stigið til hliðar vegna búferlaflutninga. Við keflinu taka Auður Stefánsdóttir ásamt Hermanni Arasyni.

Hannes stofnaði Hrossaræktarfélag Andvara árið1999 þá hluti af Hrossaræktarsamtökum Suðurlands sem var þá í Félagi Hrossabænda. Síðar var nafninu breytt í Hrossaræktarfélag Spretts (H.S.) eftir sameiningu Andvara og Gusts. Undirdeildir H.S.  voru lagðar niður fyrir u.þ.b. 5 árum og gerðist í framhaldinu nefnd innan Spretts. Nefndin stóð fyrir ýmsum viðburðum sem fjármagnaðir voru af nefndinni, s.s. árshátíð nefndarinnar sem haldin hefur verið í nóvember á hverju ári, forskoðun kynbótahrossa og námskeið í byggingardómum sem haldin hafa verið árlega á vetrarmánuðum  og svo í vor í fyrsta sinn á Íslandi grunnnámskeið í kynbótadómum fyrir unga Sprettara. Nefndin skilar góðu búi í tíð Hannesar og má þar m.a. þakka góðvinum H.S. sem hafa gefið úrvals folatolla.

Hannes hefur starfað í sjálfboðavinnu fyrir félagið, fyrst Andvara og síðar Sprett, frá árinu 1995 og stóð m.a. að byggingu Hattarvallahallarinnar (Húsasmiðjuhallarinnar), sem komst í gagnið árið 2002 og var mikil lyftistöng fyrir starfsemi félagsins – og nýtist afar vel enn þann dag í dag.

Hestamannafélagið Sprettur þakkar Hannesi Hjartarsyni kærlega fyrir sín góðu störf fyrir félagið í gegnum tíðina og óskar honum góðs gengis í nýjum verkefnum á nýjum slóðum.

 

Scroll to Top