Uppskeruhátíð Spretts var haldin á dögunum þar sem heiðraðir voru keppnisknapar Spretts ásamt því að í ár var tekin upp ný hefð – að heiðra tvær nefndir sem hafa skarað fram úr í starfi sínu. Á árinu hafa verið haldnir fjölmargir viðburðir, bæði mót og námskeið, ásamt fjölbreyttu og öflugu æskulýðsstarfi sem hefur blómstrað. Stjórn félagsins hefur lagt mikla áherslu á uppbyggingu og framtíðarsýn og unnið markvisst að fjármálum og skipulagi svæðisins. Þá hefur verið fundað með sveitarfélögunum og kynntar óskir um stækkun og uppbyggingu innviða. Í dag stendur Sprettur fjárhagslega sterkara en nokkru sinni fyrr – skuldlaust félag sem horfir björtum augum til framtíðar. Þetta er afrek sem allir félagsmenn geta verið stoltir af. Engin starfsemi væri möguleg án eljusamra sjálfboðaliða. Þeir leggja sitt af mörkum við alla vinnu innan félagsins – hvort sem það eru reiðvegir, mót, viðburðir eða laugardagsreiðtúrar. Þeir eru burðarásinn í starfinu, og þökkum við þeim innilega fyrir ómetanlegt framlag.
Heiðranir nefnda
Á uppskeruhátíð Spretts var tekin upp sú nýbreytni að heiðra þær nefndir félagsins sem þykja hafa skarað fram úr í störfum sínum, margar nefndir komu til greina enda eru nefndir innan Spretts margar hverjar afar öflugar. Að þessu sinni var ákveðið að heiðra tvær nefndir.
Reiðveganefnd Spretts
Reiðveganefndin er ein af mikilvægustu stoðum í starfi Spretts. Nefndin sér um að viðhalda og þróa reiðleiðir sem tengja félagssvæðið við nærliggjandi svæði og tryggir góðar reiðleiðir til nágranna hestamannafélaga. Á árinu hefur nefndin m.a. unnið að nýjum reiðleiðum í vesturhlíðum hverfisins og bætt tengingar við Kjóavelli, auk þess hefur hún lagt fram hugmyndir um framtíðarleiðir sem fylgja skipulagsbreytingum á svæðinu. Samstarf nefndarinnar við Garðabæ og Kópavog hefur verið lykilatriði, þar sem rætt hefur verið um stækkun svæðisins og hvernig tryggja megi að reiðleiðir fylgi uppbyggingu hverfisins. Nefndin stuðlar einnig að endurvinnslu efnis við lagningu stíga. Jón Magnússon formaður Reiðveganefndar Spretts tók við viðurkenningunni fyrir hönd nefndarinnar.
Áhugamannadeildarnefnd
Stjórn áhugamannadeildarinnar stóð í ströngu síðastliðinn vetur. Fjöldi liða og keppenda var með mesta móti og þátttaka á öllum mótunum mikil. Gríðarlega mikil vinna liggur í að halda utan um svona deild, skipuleggja deildina í heild sinni, vera í samskiptum við liðstjóra og knapa, undirbúa og halda 5 viðburði yfir veturinn, auk þess að skipuleggja lokahóf. Síðastliðinn vetur voru liðin 15 sem tóku þátt eða samtals 75 knapar. Áhugamannadeildin er dýrmæt eining innan félagsins. Við fáum gesti til okkar og það myndast vettvangur fyrir félagsmenn að hittast, borða saman og eiga góða kvöldstund. Þar að auki er áhugamannadeildin mikilvægur liður í fjáröflun félagsins. Selma Rut Gestsdóttir formaður Áhugamannadeildarnefndar Spretts tók við viðurkenningunni fyrir hönd nefndarinnar.
Heiðranir knapa 2025
Stigahæsti knapi í ungmennaflokki – stúlkur
Herdís Björg Jóhannsdóttir
Herdís Björg hefur verið á meðal fremstu ungmenna bæði hérlendis og erlendis. Hún er fyrrum heimsmeistari í tölti ungmenna og tók þátt í landsliðshópi Íslands á HM í Sviss þar sem hún reið til úrslita. Hún er frábær fyrirmynd fyrir ungt fólk í Spretti, dugleg, samviskusöm og metnaðarfull. Sprettur heiðrar hana einnig sérstaklega fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu í sumar.
Stigahæsti knapi í ungmennaflokki – drengir
Sigurður Baldur Ríkharðsson
Sigurður Baldur hefur skarað fram úr í slaktaumatölti og fimmgangi á heimaræktuðum hrossum frá Traðarlandi. Hann náði glæsilegum árangri á árinu og reið m.a. til úrslita í slaktaumatölti bæði á Íslandsmóti ungmenna og á Reykjavíkurmeistaramóti.
Stigahæsti knapi í áhugamannaflokki – konur
Auður Stefánsdóttir
Auður hefur verið ötull keppnisknapi á síðastliðnu keppnistímabili. Hún stóð uppi sem sigurvegari á Íþróttamóti Spretts í fjórgangi og reið til úrslita á Reykjavíkurmeistaramóti. Hún er jafnframt Keppnisknapi Spretts 2025, með glæsilegan keppnisárangur á árinu þar sem hún m.a. sigraði fjórfalt á Suðurlandsmótinu á Hellu.
Stigahæsti knapi í áhugamannaflokki – karlar
Rúnar Freyr Rúnarsson
Rúnar Freyr hefur sýnt mikla seiglu og metnað á keppnisvellinum. Hann reið til úrslita í tölti á bæði Reykjavíkurmeistaramóti og Fjórðungsmóti Vesturlands. Hann er traustur félagsmaður, hjálpsamur og jákvæður í öllu sínu starfi.
Stigahæsti knapi í opnum flokki – karlar
Lárus Sindri Lárusson
Lárus Sindri er metnaðarfullur þjálfari og knapi sem hefur tekið virkan þátt í mótum félagsins. Hann sigraði B-flokk á gæðingamóti Spretts á heimaræktuðum hesti frá Skúfslæk og hefur sýnt góðan árangur á árinu.
