Elísabet Þ. Þórólfsdóttir, fyrrum formaður hestamannafélagsins Andvara, er fallin frá. Elísabet, eða Elsa eins og hún var jafnan kölluð, var heiðursfélagi hestamannafélagsins Andvara, og gegndi lykilhlutverki í starfi hestamannafélagsins um áratugaskeið.
Elsa tók virkan þátt í félagsstarfi frá fyrstu tíð. Hún gengdi formennsku hestamannafélagsins Andvara á árunum 1985 til 1990. Þegar hún lét af formennsku stofnaði hún Reiðveganefnd Andvara þar sem hún lagði ómælda vinnu í þróun og uppbyggingu reiðleiða á svæðinu. Í fyrstu var hún ein í nefndinni, en fékk fljótlega Halldór H. Halldórsson til liðs við sig. Þau áttu meðal annars stóran þátt í baráttunni fyrir reiðveginum meðfram Vífilsstaðahlíðinni. Sagan segir að Elsa hafi sjálf gengið á undan jarðýtunni til að velja besta reiðvegastæðið – síðan hefur sú leið gjarnan verið kölluð Betubraut henni til heiðurs.
Elsa var kjarnakona mikil, ákveðin og rösk. Hún reið mikið út og lagði sig fram við að miðla af reynslu sinni. Hún hafði m.a. umsjón með reiðskóla Andvara í kringum 1987 þar sem fjöldi barna og ungmenna kynntust hestamennsku undir hennar handleiðslu.
Elsa átti stóran þátt í að móta hestamannalífið í Andvara og nágrenni um áratuga skeið og sat m.a. mörg landsþing Landssambands hestamannafélaga og lét ætíð til sín taka í málefnum hestamanna.
Elsa skilur eftir sig djúp spor í sögu hestamannafélagsins Andvara og verður minning hennar ávallt varðveitt með virðingu og þakklæti.
Við sendum fjölskyldu hennar og ástvinum innilegar samúðarkveðjur.
Myndin er tekin úr bókinni „Saga Andvara“. Á myndinni má sjá Elsu fara fyrir hóp reiðskólanemenda.