Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar auglýsir eftir umsóknum um afreksstyrki. Íþróttafulltrúi/yfirþjálfari hvers félags sækir um afreksstyrki fyrir félagsmenn. Þeir sem telja sig eiga rétt á afreksstyrki, sjá reglur hér fyrir neðan, eru beðnir um að senda póst á [email protected] þess efnis, sem mun þá sjá um að sækja um styrkinn. Senda þarf póst til yfirþjálfara í síðasta lagi sunnudaginn 8.september nk. Við vekjum athygli á því að einnig er hægt að sækja um ferðastyrki hjá Garðabæ.
Ath! Afreksstyrkir og umsóknir hjá Kópavogsbæ fara fram í lok október/byrjun nóvember og verður auglýst þegar nær dregur.
Úthlutunarreglur afreksstyrkja
Þeir aðilar, einstaklingar eða lið, sem til greina koma vegna afreksstyrkveitinga skv.gr.3.3. eru:
a. Þeir sem stunda einstaklingsíþróttir með íþróttafélagi í Garðabæ
b. Þeir sem eiga lögheimili í Garðabæ og stunda íþróttir með íþróttafélagi utan Garðabæjar, enda er viðkomandi íþróttagrein ekki stunduð í Garðabæ.
Afreksmaður í íþróttum telst sá vera sem á landsvísu nær framúrskarandi árangri í íþróttagrein sinni og keppir um Íslands- eða bikarmeistaratitla eða aðra sambærilega titla.
ÍTG getur einnig að eigin frumkvæði komið með tillögur til bæjarstjórnar um styrkveitingar, telji ráðið það eiga við.
Veittir styrkir eru hvatning til frekari framfara og til að mæta útlögðum kostnaði vegna þjálfunar og keppni.
Allir íþróttamenn sem þiggja styrk skulu hlíta þeim reglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit svo og þeim almennu siða- og agareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan. Viðkomandi íþróttamenn skulu jafnframt koma fram í skólum og hjá félögum í bænum sé þess óskað af hálfu ÍTG.
Umsóknir um afreksstyrki skulu berast til íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar fyrir 10.september á þar til gerðum eyðublöðum á Þjónustugátt Garðabæjar.
Upplýsingar veitir íþróttafulltrúi Garðabæjar s. 525 8548 eða [email protected]
Fyrir hönd Spretts veitir Þórdís Gylfadóttir upplýsingar á [email protected]