Skip to content

Fréttir frá stjórn

Nú er vorið komið og aldrei skemmtilegra að ríða út á öllum frábæru reiðleiðunum sem við í Spretti erum svo heppin að hafa í okkar umsýslu. Framundan er sumarið og blóm í haga. Við lítum til baka á frábæran og árangursríkan vetur þar sem félagmenn tóku höndum saman í allskonar störfum.


Ný stjórn hefur sett sig inn í fjölbreytt mál og hefur framkvæmdastjóri ásamt yfirþjálfara yngri flokka hjálpað mikið til við að setja nýja stjórnarmeðlimi inn í verkefnin. Algjörlega ómetanlegt að vera með svo kröftugt starfsfólk eins og Sprettur hefur á sínum snærum. Stjórn og starfsfólk hefur skrifað undir siðareglur sem búið er að hengja upp á 2 hæð í Samskipahöllinni, sjá meðfylgjandi mynd. Stjórn er að vinna sambærilegar reglur fyrir Sprett sem vilji er til að fá nefndir félagsins til að starfa eftir. Aðilar í stjórn hafa verið að taka starfsmannasamtöl við starfsmenn félagsins til að fá sameiginlegan skilning á ólíkum störfum, væntingum og metnaði. Virkilega gott að stilla saman strengi milli starfsfólks og stjórnar.

Siðareglur ISI
Siðareglur sem stjórn og starfsfólk Spretts hefur skrifað undir.

Ákveðið var að fá nefndir félagsins til að mæta á stjórnarfundi og kynna þau verkefni sem verið er að sinna hverju sinni, stjórnarfundir eru haldnir öll þriðjudagskvöld meðan að ný stjórn er að koma sér inn í öll helstu mál félagsins. Kvennatöltsnefndin reið á vaðið og kom inn á stjórnarfund í síðustu viku og kynnti fyrir okkur þetta glæsilega mót. Kvennatöltið verður sí vinsælla milli ára og ávallt hið glæsilegasta. Aukalega var farið yfir uppgjör mótsins varðandi hvað mátti betur fara í umgjörð frá Spretti ásamt því að skoða fjárhagslegt uppgjör. Á næsta stjórnarfundi kemur Áhugamannadeildin inn á fundinn og svo munum við halda áfram að kalla inn ólíkar nefndir. Við í stjórninni erum mjög stolt af þessu frábæra og öfluga nefndarstarfi sem er í Spretti.

Sprettur á þrjá fulltrúa í stjórn LM2024, en það eru Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Lárus Sindri Lárusson gjaldkeri og varamaður í stjórn er Jónína Björk formaður Spretts. Við erum því öflugt að koma að skipulagi mótsins en í síðustu viku var haldinn sjálfboðaliðadagur í Spretti þar sem störf sjálfboðaliða á Landsmóti voru kynnt og fjöldinn allur af sjálfboðaliðum fyrir Landsmót mætti í veislusalinn okkar. Úrtaka Spretts fyrir Landsmót fer fram næstu helgi og þá kemur í ljós hvaða knapar og hestar eru á leið á mótið fyrir hönd Spretts.

Reiðveganefndin heldur áfram að vinna sitt öfluga starf og stjórn hefur komið inn á fundi með þeim til að styðja í samtalinu við bæjarfélögin. Æskulýðsnefndin er á leið með unga Sprettara í helgarferð í Flagbjarnarholt og mikil eftirvænting ríkir fyrir ferðinni. Öflugt námskeiðahald og fræðslustarf hefur verið í Spretti í vetur og ólík námskeið í boði fyrir breiðan hóp félagsmanna. Gaman er að segja frá því að í vetur hefur orðið 68% aukning milli ára á þátttöku knapa í yngri flokkum á námskeiðum félagsins og er það frábær árangur í því að virkja ungu knapana í Spretti. Fjöldi annarra nefnda er að störfum og munum við nefna þær í næstu pislum.

Jónína formaður átti fund með Ásdísi bæjarstjóra Kópavogs nýverið til að kynna sig til leiks og hefja samtalið um eflingu innviða Spretts. Sambærilegt samtal mun eiga sér stað með Garðabæ á næstu misserum. Þessi samtöl eru vonandi góður tónn inn í öflugt samtal og samvinnu sveitarfélaganna við Sprett.

Við hvetjum alla Sprettara til að mæta í miðbæjar reiðina þriðjudaginn 28. maí en hægt er að skrá sig í Sportabler. Gaman væri ef Sprettur væri með öflugan hóp knapa í miðbæ Reykjavíkur við hlið annara hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta ásamt fjölmörgum öðrum málum eru mál sem stjórn hefur fengið inn á borðið sitt. Fundargerðir stjórnar eru komnar á vefinn fyrir áhugasama Sprettara að glöggva sig á.

Ef þið viljið koma erindum eða sjónarmiðum á framfæri má senda tölvupóst á stjorn@sprettarar.is

Fyrir hönd stjórnar
Jónína Björk formaður Spretts