Nýárs pistill Spretts

Kæru Sprettarar,
Árið 2025 er senn að baki og við getum horft stolt til baka á allt sem við höfum áorkað saman undanfarna mánuði. Þetta var ár sem einkenndist af samstöðu, gleði og metnaði, hvort sem tekið var þátt í mótum, komið að viðhaldi á félagssvæðinu okkar, æskulýðsstarfinu, mætt í skemmtilega viðburði eða annað.
Á árinu endurnýjuðum við styrktarsamning félagsins við Samskip, fjárfestum í nýjum ljósum í Húsasmiðjuhöllina, settum nýja flís í gólfið á bæði Samskipahöllinni og Hattarvallahöllinni, vinna hófst við að bæta lýsingu á reiðleiðum, löguðum drenið í kringum Samskipahöllina, hófum framkvæmdir á nýjum rekstrarhring og bættum við nýjum reiðleiðum á kortið.
Líf og fjör einkenndu veturinn í Samskipahöllinni sem og í Hattarvallahöllinni. Mikið af námskeiðum voru í boði fyrir félagsmenn og kappkostað var við að hafa úrvalið sem breiðast fyrir sem flesta áhugasama félagsmenn. Aukalega voru Vetrarleikar, Dymbilvikusýning, Allra sterkustu, Kvennatölt, Karlatölt, Blue Lagoon deildin, 1. Deildin og Áhugamannadeildin í Samskipahöllinni sem hleypti lífi í svæðið okkar og veitingasöluna þar sem hægt var að kaupa sér mat í veislusalnum og sitja með skemmtilegu hestafólki og spjalla. Um vorið var haldið glæsilegt íþróttamót og kynbótasýningar ásamt gæðingakeppni þar sem veitt var Topphestastyttan sem Birkir Snær Sigurðsson í barnaflokki hlaut og Svansstyttan sem Halldór Svansson sem keppti í B flokki hlaut. Metamótið var síðan haldið með glæsibrag í lok sumars. Sprettarar voru einnig áberandi á Íslandsmóti barna og unglinga og var fjöldi knapa sem tóku þátt. Á mótinu varð Kristín Rut Jónsdóttir fjórfaldur Íslandsmeistari í barnaflokki og Elva Rún Jónsdóttir varð Íslandsmeistari í tölti unglinga. Mótanefnd Spretts hefur verið endurvakin til að vinna að enn skýrara skipulag mótahalds í Spretti. Dagskrá fyrir 2026 er þegar kynnt og spennandi viðburðir bíða okkar.
Æskulýðsstarfið var öflugt eins og áður og var ferðin til Svíþjóðar á Sweden International Horse Show í nóvember hápunktur ársins fyrir unga Sprettara. Í ferðinni var gleðin við völd og var samstaðan hjá Spretturum eftirtektarverð. Sprettur er kominn langt á veg með klára umsókn til að vera fyrirmyndarfélag ÍSÍ og stefnum við að senda skjölin frá okkur í það umsóknarferli snemma á næsta ári.
Nokkuð mikil vinna hefur verið í skipulagsmálum í kringum Sprett á árinu. Það sem ber hæst eru hugmyndir Kópavogsbæjar um að koma áhaldahúsi bæjarins við Samskipahöllina. Stjórn félagsins hefur unnið að því að mótmæla þeim áformum og vinnur að því að þessi áform verði ekki að veruleika. Skipulagsvinnan er enn í gangi og næsti fasi fer í auglýsingu á fyrsta hluta 2026. Mikilvægt er að allir félagsmann standi saman í þessu máli til að tryggja hagsmuni Spretts og svæðisins.
Uppskeruhátíð bæði keppnisknapa og hrossaræktarinnar var á haustmánuðum, þar sem kynbótahross, ræktendur og knapar voru heiðraðir fyrir árangur sinn á árinu. Á uppskeruhátíðinni var Auður Stefánsdóttir útnefnd Keppnisknapi Spretts 2025, samhliða því sem áhugamannadeildarnefndin og reiðveganefndin voru heiðruð  fyrir framúrskarandi starf á árinu. Einnig var haldin lífleg uppskeruhátíð barna og unglinga þar sem knapar voru heiðraðir fyrir góðan árangur og börnin skemmtu sér saman. Skötuveislan á Þorláksmessu heppnaðist vel þar sem  söngur, hlátur og góð stemning var í veislusalnum og þangað mættu yfir 200 manns til að gæða sér á ljúffengri skötu í góðra vina hópi.
Síðasta árið hefur núverandi stjórn rekið félagið án framkvæmdastjóra. Stjórnarmenn og starfsfólk hafa lagt mikið á sig til að ná rekstrinum í gott horf svo hægt sé að horfa til uppbyggingar til framtíðar. Vel hefur tekist, félagið orðið skuldlaust, árlegar vaxtagreiðslur  á bilinu 5-6 milljónir eru því ekki lengur þung byrði og ljóst er að rekstur Spretts getur verið sjálfbær og heilbrigður ef vel er haldið utan um fjármálin.
Spennandi tímar eru framundan á komandi ári. Landsmót verður haldið á Hólum árið 2026. Nú þegar hefur stjórn tryggt pláss í Skagafirðinum fyrir Sprettara sem keppa á mótinu en félagið fer með stóran hóp knapa á mótið, nánari upplýsingar um þetta berast þegar nær dregur.
Rétt fyrir áramót fengum við staðfestingu frá bæjarfélögunum um að samþykkt var í fjárlögum að leggja til fjármagn í áframhaldandi innviðauppbyggingu í Spretti. Verið er að vinna viljayfirlýsingu en fyrsti áfanginn í þessu verkefni er bygging á nýju félagshesthúsi. Í ljósi þessarar spennandi framtíðar þá hefur stjórn ákveðið að ráða inn framkvæmdastjóra til að létta á stjórn og styðja hana og nefndir í þeim verkefnum sem framundan eru. Ráðningarferlið er að fara af stað og hvetjum við áhugasama félagsmenn til að hafa samband við stjórn. Samhliða þessu stígur Þórdís Anna til hliðar sem starfsmaður á skrifstofu en mun áfram sinna starfi yfirþjálfara Spretts.
Þakkir fyrir árið
Stjórnin er stolt af því sem við Sprettarar náðum saman á árinu 2025. Okkur tókst að efla samstöðu, þjónustu og aðstöðu ásamt því að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og standa með unga fólkinu okkar. Stjórn félagsins vill þakka öllum sem lögðu hönd á plóg, knöpum, sjálfboðaliðum, foreldrum, styrktaraðilum og starfsfólki fyrir frábær störf á árinu. Við öll erum sem eitt hjartað í Spretti. Gleðilegt nýtt ár.
Scroll to Top