Sérstök áhersla var lögð á að heiðra okkar yngstu og dýrmætustu knapa (pollana). Undanfarið hafa pollanámskeið verið annað hvort ókeypis eða verulega niðurgreidd og hefur sú stefna skapað fjölda áhugasamra og efnilegra ungra hestamanna. Hrafnhildur Blöndahl, sem hefur leitt starfið af miklum metnaði og fagmennsku, var kölluð upp á svið til aðstoðar við afhendingu viðurkenninga til allra pollana sem luku vetursnámskeiðum. Pollarnir fengu dynjandi lófatak þegar nöfn þeirra voru lesin upp og þeir stigu fram til að taka á móti sínum fyrstu Spretts viðurkenningum.
Einnig voru heiðruð öll þau sem luku verklegu prófi í Knapamerkjum. Knapamerki eru mikilvægur grunnur fyrir alla unga knapa og var ánægjulegt að sjá hversu margir stóðu sig vel.
Á árinu 2025 voru það Kristín Elka Svansdóttir og Lilja Guðrún Gunnarsdóttir sem hlutu titilinn fyrir framúrskarandi framlag sitt.
– Elva Rún Jónsdóttir, Íslandsmeistari í tölti í unglingaflokki á Goða frá Garðabæ.
Apríl Björk Þórisdóttir, Ásta Hólmfríður Ríkharðsdóttir, Elva Rún Jónsdóttir, Íris Thelma Halldórsdóttir, Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir, Katla Grétarsdóttir, Kári Sveinbjörnsson og Lilja Guðrún Gunnarsdóttir.
Kristín Rut Jónsdóttir – Stigahæsti knapinn í barnaflokki, stúlkur, er ungur og bráðefnilegur knapi sem á framtíðina fyrir sér. Kurteis, ljúf og góð við menn og dýr. Hún á ekki langt að sækja keppnisáhugann en eldri systur hennar eru einnig verið ötulir keppnisknapar. Þessi knapi var duglegur að taka þátt á bæði mótum hér innan félags sem utan félags. Hún var hvorki meira né minna en fjórfaldur Íslandsmeistari á árinu og er það einstakt afrek sem ekki hefur verið leikið áður, amk er hún fyrsti Sprettarinn til að ná þessum árangri og þótt víðar væri leitað. Hún var Íslandsmeistari í tölti, fjórgangi, gæðingatölti og var samanlagður sigurvegari. Stigahæsti knapinn í barnaflokki stúlkur er Kristín Rut Jónsdóttir.
Hilmir Páll Hannesson – Stigahæsti knapinn í barnaflokki, drengir, er afar hress og skemmtilegur ungur og efnilegur knapi. Alltaf brosandi með skemmtilega nærveru en þó er stutt í keppnisskapið. Hann var duglegur að taka þátt í fjölmörgum mótum og reið oftast til úrslita, í mismunandi keppnisgreinum, sem sýnir fjölhæfni hans sem knapa. Á síðastliðnum keppnistíma stóð hæst árangur hans á Íslandsmóti barna og unglinga þar sem hann endaði annar í slaktaumatölti barna auk þess sem hann reið til úrslita í tölti, fjórgangi og gæðingatölti. Stigahæsti knapinn í barnaflokki drengir er Hilmir Páll Hannesson.
Elva Rún Jónsdóttir – Stigahæsti knapinn í unglingaflokki, stúlkur, er þrautreyndur knapi þó hún sé ung að árum. Hún hefur verið mjög dugleg að taka þátt í fjölmörgum mótum, bæði hér innan félags sem utan á mörgum hrossum. Hún tekur þátt í mörgum mismunandi keppnisgreinum með afar góðum árangri og er oftar en ekki í úrslitum. Á síðstliðnu keppnistímabili stóð hæst Íslandsmeistaratitill í tölti unglinga, auk þess sem hún reið til úrslita í fimmgangi og fjórgangi. Stigahæsti knapinn í unglingaflokki stúlkur er Elva Rún Jónsdóttir.
Kári Sveinbjörnsson – Stigahæsti knapinn í unglingaflokki, drengir, er afar kurteis, jákvæður og hjálpsamur ungur drengur sem er frábær fyrirmynd innan vallar sem utan. Hann hefur tekið gífurlegum framförum undanfarin ár og það er einstaklega gaman að fylgjast með honum vaxa og dafna og ná árangri í sinni íþrótt. Á síðastliðnu keppnistímabili stóð hæst efsta sætið í slaktaumatölti á Suðurlandsmóti, auk þess sem hann reið til úrslita á Íþróttamóti Spretts og Gæðingamóti Spretts. Stigahæsti knapinn í unglingaflokki drengir er Kári Sveinbjörnsson.
Á fb síðu hestamannafélagsins Spretts má sjá fleiri myndir frá kvöldinu.
