Ég vil beina sjónum að grundvallaratriði hestamannafélaga, sjálfboðaliðastarfi. Allt starf hestamanna og íþróttahreyfingarinnar veltur á því. Án sjálfboðaliða væri starfsemin ekki sú sem við þekkjum í dag.
Til þess að félag haldist virkt og eftirsóknarvert þarf fjölbreytt og öflugt starf. Þetta starf byggist nær alfarið á óeigingjörnu framlagi sjálfboðaliða. Til að stuðla að blómlegu sjálfboðaliðastarfi þurfum við að skilja hvað hvetur fólk til að leggja sitt af mörkum og hvernig við getum sýnt þeim þakklæti og virðingu. Stjórnir bera ábyrgð á að skapa umgjörð sem hvetur sem flesta til þátttöku, en þær eiga ekki að bera alla vinnuna sjálfar.
Nýjar kröfur og áskoranir
Sjálfboðaliðastarf á að spretta af áhuga á að vinna fyrir heildina – ekki vegna eigin hagsmuna eða fjárhagslegs ávinnings. Kröfurnar til sjálfboðaliða eru allt aðrar en áður, því nú reka mörg félög umfangsmikla starfsemi sem minnir á rekstur öfugra fyrirtækja. Því miður verður stundum álag og gagnrýni á þá sem leggja mest af mörkum, jafnvel frá félagsmönnum sem sjálfir taka ekki þátt eða leggja af mörkum til samfélagsins. Það eru dæmi um að félagslegir hagsmunir og einstaklingshagsmunir rekist á og þrýstingur sé settur á ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum heildarinnar. Þá gerist það líka að sjálfboðaliðar verða fyrir persónulegum kröfum vegna ágreinings, sem er afar flókin staða. Þetta dregur úr vilja fólks til að leggja sitt af mörkum og veikir stoðir félaganna.
Sjálfboðaliðar hjá Spretti
Hjá Spretti sinna sjálfboðaliðar fjölbreyttum verkefnum, allt frá innviðauppbyggingu og sjálfbærni til mótahalds og þróunar félagsins. Við höfum lagt áherslu á að virkja sem flesta, haldið opna félagsfundi, auglýst eftir fólki í nefndir, komið á siðareglum og þróað gagnsætt umbunarkerfi sem byggir á sanngirni. Nú starfa 21 nefnd af miklum krafti fyrir Sprett. Það er einmitt styrkur sjálfboðaliðanna sem heldur félaginu uppi.
Stærsta áskorunin felst í mótahaldi. Dagskráin er þétt, samskipti við keppendur geta verið erfið og kröfurnar á sjálfboðaliða miklar. Færri treysta sér til að taka þátt í mótahaldi og mikil hætta er á að næsta kynslóð taki ekki við keflinu.
Lausnir og leiðir til úrbóta
Einn möguleiki er að hækka skráningargjöld og greiða fyrir vinnu á mótum, en það gæti leitt til aukinnar stéttaskiptingar og hindrað nýliðun. Önnur leið er að hvetja keppendur til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Sprettur leggur til að knapar fái verulegan afslátt af skráningargjaldi gegn því að vinna ákveðinn fjölda tíma á mótunum. Með þessu verður meiri skilningur hjá keppendum á mótahaldi, fleiri virkjast til starfa og sjálfboðaliðavinnan heldur áfram að vera grunnstoð félagsstarfsins. Norðurlöndin hafa verið með svipað fyrirkomulag um árabil og Ísland ætti að geta fetað í þeirra fótspor.
Þessi tillaga frá Spretti og frekari útfærsla af henni var kynnt á formannafundinum sem fram fór í nóvember síðastliðinn. Sprettur hvetur LH til að skoða tillöguna og leggja hana fyrir félögin. Jafnframt biðjum við alla að fara varlega í að launa störf sem hingað til hafa verið unnin sjálfviljug. Ef farið verður að greiða fyrir störfin raskar það jafnvægi sjálfboðaliðastarfsins.
Fyrir hönd sjálfboðaliða í Spretti
Jónína Björk Vilhjálmsdóttir
Formaður Spretts
