Sumri hallar hausta fer og því ekki úr vegi að fara lauslega yfir nýframkvæmdir og endurbætur sem Reiðveganefnd Spretts hefur staðið fyrir síðustu misseri.
Á allmörgum stöðum hefur verið bætt við yfirborðsefni í stígakerfi félagsins þar sem brýnust var þörfin. Þeir staðir eru á meðfylgjandi korti merktir gulir:
1 ) Borið var ofan í nánast allan reiðstíginn um holtið gengt Guðmundarlundi.
2) Bætt í reiðstíginn efst á Bústaðaveginum.
3) Víða bætt í skellur og dokkir á Grunnuvatnaleið.
4) Bætt í reiðstíginn meðfram Hvörfum vestan Elliðavatns.
5) Borið ofan í reiðstíginn með Hjöllum á um 300 m kafla við Sönghvamm.
Nýframkvæmdir- merkt með grænu á kortinu:
6) Framkvæmdir við nýju reiðleiðina úr Grunnuvatnaskarði yfir í Vífilstaðahlíð eru á lokametrunum. Þessa dagana er verið að setja upp áningaslár og eins þarf að merkja leiðina rækilega sem vonandi gerist á næstu vikum. Fundað verður 7.okt. n.k. með skipulagsyfirvöldum í Garðabæ um lokafrágang stígsins. Við í nefndinni erum nokkuð ánægð með nýju leiðina sem er gullfalleg og með miklu útsýni en efsti hluti brekkunnar niður Vífilstaðahlíð er brattur svo sem vænta mátti. Við lögðum til aðra staðsetningu en fengum ekki okkar útfærslu samþykkta en vinnum með niðurstöðuna. Þessi nýja leið verður kærkomin viðbót hvort heldur er í stutta vetrar reiðtúra eða í lengri túra þegar daginn tekur að lengja.
7) Ný leið sem tengir reiðstíga nýja hverfisins beint að dyrum Húsasmiðjuhallar. Þessi leið mun án efa verða dýrmætari eftir því sem nýja hverfið byggist upp og eykur líka möguleika knapa til að nota reiðstígakerfið í nýja hverfinu til útreiða. Það ætti að létta eitthvað á Kjóavallahringnum.
Bestu kveðjur,
Reiðveganefnd Spretts