Aðalfundur Spretts fór fram 1. apríl síðastliðinn. Vel var mætt og félagar í Spretti áhugasamir um félagið. Farið var yfir skýrslu stjórnar sem fylgir hér með í þessari frétt sem og reikninga félagsins. Þrjár nefndir kynntu sín störf og voru það Sjálfbærninefnd, æskulýðsnefnd og reiðveganefnd.
Farið var í gegnum lagabreytingartillögur og samþykktar voru þónokkrar breytingar á lögum félagsins. Ný lög verða birt á vefsíðu félagsins í þessum mánuði.
Davíð Áskelsson, Haraldur Pétursson og Sigrún Valþórsdóttir voru kosin í stjórn Spretts og hafa þau sæti í stjórn næstu tvö árin. Óskum við þeim til hamingju. Úr stjórn gengur Hermann Vilmundarson en hann gaf ekki kost á sér til frekari stjórnarsetu. Við þökkum Hermanni kærlega fyrir sín frábæru störf fyrir Sprett. Fundargerð aðalfundar verður birt á vefnum á næstu misserum.
Meðfylgjandi mynd er af æskulýðsnefnd Spretts en stjórn þakkaði þeim fyrir virkilega vel unnin störf á árinu en nefndin hlaut Æskulýðsbikar LH á liðnu Landsþingi. Á myndinni eru fv. Jónína Björk Vilhjálmsdóttir formaður Spretts, Þórunn Hannesdóttir formaður Æskulýðsnefndar, Inga Berg Gísladóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Erla Magnúsdóttir og Þórdís Anna Gylfadóttir yfirþjálfari Spretts.
Meðfylgjandi mynd sýnir nýja stjórn Spretts, hana skipa talið frá vinstri; Sigrún Valþórsdóttir, Jónína Björk Vilhjálmsdóttir, Haraldur Pétursson, Katla Gísladóttir, Sigurbjörn Eiríksson, Lárus Sindri Lárusson og Davíð Áskelsson.
Skýrsla stjórnar:
Sæl verið þið kæru félagar
Það er ótrúlegt að liðið sé ár frá síðasta aðalfundi. Okkur líður eins og það sem við í stjórn, nefndir félagsins, starfsfólk og sjálfboðaliðar hafa áorkað á þessum 12 mánuðum spanni mörg ár. Stjórn hefur fundað 39 sinnum á þessu starfsári. Ýmsar nefndir hafa komið inn á stjórnarfundi og kynnt sína starfsemi og næstu skref. Stjórn leggur mikla áherslu á að nefndir starfi sjálfstætt.
Fundir og miðlun
Haldnir voru 4 félagsfundir á árinu sem voru vel sóttir. Kallað var til félagsfundar í september sem var fjölmennur en þar var farið yfir helstu verkefni, fjármál félagsins ásamt því var Lilju þakkað fyrir störf sín og leyst út með gjöf frá Spretti. Fundur var haldinn um lausnir í taðmálum og nefndarkvöld var haldið í febrúar en aukalega hafa verið haldnir foreldrafundir með foreldrum yngri Sprettara. Skrifaðir voru fjórir langir pistlar sem birtir voru á vefsíðinni frá stjórn sem fjölluðu um helstu fréttir og verkefni sem hafa verið á borði Stjórnar. Lagt hefur verið áhersla á að birta fundargerðir á vefnum reglulega. Opnuð var ný vefsíða félagsins, þar með var upplýsingamiðlun til félgsmanna komið í betra horf en verið hefur og gömlu síðunum var lokað. Nýja síðan tekur utan um allar fréttir félagsins frá 2012 og fangar því söguna vel. Hægt er að skrá sig í áskrift af fréttum og fá félagsmenn þá tölvupóst þegar settar eru inn nýjar fréttir á vefinn. Með þessu hefur stjórn reynt að bæta upplýsingaflæði til félagsmanna og auka gagnsæi í störfum félagsins.
Haldinn var stefnumótunarfundur í október þar sem öllum Spretturum var boðið að mæta og frábært plagg varð til frá þeim fundi sem aðgengilegt er á vefsíðu félagsins. Hlutverk Spretts var mótað og er það “Að móta félagssvæði, standa vörð um þarfir félagsmanna og efla áhuga á hestum og hestamennsku”. Gildi Spretts voru valin og eru þau Samvinna, Virðing og Öryggi, framtíðarsýnin er að Sprettur verði fyrirmynd annarra hestamannafélaga, vagga nýliðunar með öfluga innviði og leiðandi í innanhúsmótahaldi á Íslandi auk þess voru mótaðar fjórar áherslur sem við ætlum að vinna að til að ná framtíðarsýninn. Það er við hæfi og algjörlega tímabært að móta stefnu fyrir Sprett þar sem félagið hefur nú slitið barnskónum sínum. Það má samt sem áður rifja upp að saga Spretts nær aftar en árið 2012 en bæði Gustur og Andvari voru stofnuð sama ár, eða árið 1965 og fögnum við því á þessu ári 60 ára farsælli sögu. Okkur hefur tekist vel að fóstra hefðir gömlu félaganna í Spretti og öll skilgreinum við okkur í dag sem Sprettara.
Rekstur félagsins
Ein af aðal áherslum nýrrar stjórnar á þessu ári var sett á að ná utan um rekstur og fjármál félagsins. Eins og kynnt var á félagsfundi sl september þá þurfti nýja stjórn félagsins fljótlega að hækka yfirdráttarheimildina úr 43 milljónum í 45 milljónir til að standa í skilum varðandi útgjöld sem búið var að stofna til og semja við samstarfsaðila sem áttu inni hjá félaginu. Í kjölfarið var farið í gegnum alla útgjaldaliði, dregið úr öllum kostnaði ásamt því að skoða tekjustreymið með það að markmiði að lækka yfirdráttinn sem lá á félaginu. Það verkefni hefur gengið vel í vetur eins og gjaldkeri mun fara yfir á eftir og það gleður stjórn að tilkynna að núna í marsmánuði tæpu ári síðar er félagið ekki lengur með skuldir né lán, yfirdrátturinn horfinn og það þýðir að við þurfum ekki lengur greiða 6 milljónir í vexti á ári, 500.000 á mánuði eins og verið hefur undanfarin misseri.
Á árinu tókst okkur að klára og fá samþykkt á félagsfundi síðasta haust bæði afreksstefnu fyrir Sprett sem aðgengileg er á vefnum sem og siðareglur og hegðunarviðmið sem félagið er að starfa eftir núna. Vinnan byggir á plöggum meðal annars frá ÍSÍ og LH.
Viðhald
Þrátt fyrir að hafa tekið vel utan um rekstur félagsins var farið í viðhald á eignum. Farið var í að vinna gólfið í Samskipahöllinni með stórtækum vélum, efni tekið ofan af því og golfið unnið upp með nýrri flís. Keypt voru ný ljós í Hattarvallahöll sem sett verða upp 2. apríl. Niðurföll meðfram Samskipahöll sett í jörðu til að vatnið sem safnast í kringum höllina eigi sér einhverja undankomuleið og verið er að klára þann frágang núna. Gerður var upp Collect völlur niðri í skeifu, ný möl var sett í hringgerði, sett upp hitastýring í Hattarvallahöllina og ásamt því að raflagnir í höllinni voru yfirfarnar og lagfærðar. Þetta er dæmi um mál sem við höfum metið sem svo að geti ekki beðið að ráðast í þrátt fyrir mikið aðhald í kostnaði.
Stofnuð var ný nefnd í sumar sem kallast Innviðanefnd. Nefndin hefur það verkefni að skoða uppbyggingu og viðhald á svæðinu okkar. Nefndin hefur meðal annars verið að skoða tækifæri tengt því að byggja nýtt félagshesthús, upphitunaraðstöðu/kennsluhöll fyrir Samskipahöllina ásamt því að hlera félagsmenn um það hvað fólki finnst mikilvægt að félagið ráðist í. Það þarf að forgangsraða viðhaldsmálum á mannvirkjum og innviðum samhliða því að skipuleggja áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu okkar. Við þurfum að skoða hvernig við viljum byggja upp svæðið okkar í þágu sem flestra félagsmanna.
Viðburðir
Landsmót hestamanna var haldið í sameiningu af Spretti og Fáki á félagssvæði Fáks síðastliðið sumar og fóru fjölmargir klukkutímar hjá Stjórn í þann undirbúning. Sjálfboðaliðar í Spretti mönnuðu margar stöður á mótinu sem og þá lánaði Sprettur tæki, tæknibúnað og dómpall til mótsins. Framkvæmdin fór vel fram, bæjarstjórar og bæjarfulltrúar Garðabæjar og Kópavogs mættu á bæði setningu mótsins sem og í verðlaunaafhendingu í yngri flokkum í gæðingakeppninni.
Mikið líf hefur verið í Spretti og ljóst er að ótrúlega öflugt starf á sér stað í grasrótinni hjá okkur sem er mikilvæg fjáröflun fyrir félagið okkar. Haldin var uppskeruhátíð fyrir bæði yngri flokka og fullorðna, Skötuveisla, Áhugamannadeild, 1. Deild, þorrablót, vetrarleikar, kvennatölt, karlatölt, dymbilvikusýining, Bláa lóns mótaröð, fræðsluerindi, viðburðir hjá kynbótanefndinni okkar, firmakeppni, kórskemmtun, laugardagsútreiðar og hundasýningar er dæmi um hluti sem eru í gangi hjá okkur en margt fleira mætti nefna.
Hallirnar hafa verið mikið í útleigu í vetur og í raun meira en okkur finnst við geta boðið félagsmönnum upp á. Það hefur verið áskorun að finna tíma fyrir viðburði félagsins og er mikið legið yfir bestun á notkuninni svo allir geta unað sáttir við. Leitað hefur verið leiða til að létta á höllinni á næsta tímabili svo félagsmenn fái meiri aðgang að henni. Reiðmaðurinn verður áfram 2 -3 námskeið í Spretti en hundasýningarnar munu hverfa á brott næsta vetur.
Samtal LH og Spretts
Tveir frá stjórn Spretts fóru á fund með LH skömmu eftir að ný stjórn tók við. Tilgangurinn var að sjá hvernig LH gæti stutt við Sprett með sem besta móti. Þetta var góður fundur og gaf okkur þá tilfinningu að það væri mikilvægt að fá Sprettara inn í stjórn LH. Á Landsþingi buðu tveir Sprettarar sig fram. Sprettarinn og fyrrum formaður okkar hún Linda Björk Gunnlaugsdóttir bauð sig fram í formann LH og Sigurbjörn Eiríksson stjórnarmaður í Spretti bauð sig fram í varastjórn LH. Þau hlutu bæði kosningu og var það mjög gleðilegt. Sigurbjörn tók einnig að sér að sinna varaformennsku Landsliðsnefndar LH. Sprettur kom einnig með mál inn á Landsþingið er varðar stuðning LH í þeim vandamálum sem hestamenn á höfuðborgarsvæðinu glíma við er varðar losun á taði. Tekið var vel í tillögu okkar og skipuð var nefnd um málin sem Sigurður formaður sjálfbærninefndar Spretts situr í fyrir hönd okkar. Búið er að fjalla um málið í fjölmiðlum sem hefur verið ákveðinn þrýstingur á bæjarfélögin er þetta varðar. Jón Magnússon formaður reiðveganefndar Spretts tók að sér formennsku í reiðveganefnd LH, Davíð Áskelsson stjórnarmaður í Spretti bauð sig fram í tölvunefnd LH. Það er mikill styrkur í því og gaman að sjá hvað margir Sprettarar eru að láta til sín taka í málefnum hestamanna.
Á landsþingi hlaut Sprettur hinn eftirsóknarverða æskulýðsbikar LH fyrir eftirtektavert starf er varðar yngri kynslóðina í félaginu. Þetta er æðsta viðurkenning sem æskuýðsmálin geta fengið og er Sprettur gríðarlega stoltur af þessari viðurkenningu. Þetta gerist ekki að sjálfum sér og ljóst að ómæld vinna nefndarinnar og foreldra barnanna liggur á baki með stuðningi frá starfsmanni félagsins Þórdísi Önnu. Mig langar að kalla upp æskulýðsnefnd Spretts og Þórdísi Önnu og veita þeim blóm til viðurkenningar fyrir störf sin í þágu ungra Sprettara.
Bæjarfélögin
Ný stjórn lagði fljótt áherslu á aukið samtal við bæjarfélögin. Skömmu eftir að ný stjórn tók við fundaði formaður með Almari annarsvegar og Ásdísi hinsvegar til að ræða þann árangur sem Sprettur hefur náð í til dæmis iðkendaaukningu og afreksstarfi. Einnig var rædd fjárhagsstaða félagsins ásamt vilja Spretts varðandi uppbyggingu. Verkefnið sem við fengum var að ná tökum á fjármáum og setjast svo niður með þeim varðandi áframhaldandi áform. Samtöl voru í sumar á Landsmóti varðandi næstu skref Spretts varðandi uppbyggingu. Stjórn fundaði svo síðla hausts með báðum bæjarstjórunum en fundurinn fór fram á bæjarskrifstofum Garðabæjar. Farið yfir aðgerðir félagsins í fjármálunum og kynnt fyrir bæjarstjórunum vilji félagsins í innviðauppbyggingu á svæðinu samhliða stækkun félagssvæðisins í Garðabæjarlandi. Mikil jákvæðni var meðal beggja bæjarstjóra að taka málið áfram og verða það verkefni eftir aðalfund að fylgja þeim málum frekar eftir, en á þeim hraða sem félagið treystir sér til.
Einnig hefur töluvert verið fundað með báðum sveitarfélögunum varðandi taðmál og taðlosun í Spretti. Sjálfbærninefndin hefur stutt vel í því máli ásamt því hefur stjórn kallað inn Sveinbjörn eldri til stuðnings í samtölum. Búið er að skila tillögum um svæði sem Sprettur getur tekið í fóstur til beggja bæjarfélaga og heilbrigðiseftirlitsins. Jákvæðar viðtökur hafa verið hjá öllum aðilum en beðið er eftir umsögn frá Heilbrigðiseftirlitinu og Kópavogsbæ en jákvæð viðbrögð hafa komið frá Garðabæ.
Starfsfólk Spretts
Breytingar hafa verið á árinu í hópi þeirra sem sinna störfum fyrir félagið. Tekin var ákvörðun um að kaupa bókhaldsþjónustu hjá verktaka út í bæ. Lilja framkvæmdastjóri félagsins til fjögurra ára fór í leyfi í maí og lét svo af störfum hjá Spretti undir lok sumars en gerður var starfslokasamningur við hana og var hún því með tekjur frá Spretti fram eftir hausti. Í fjarveru framkvæmdastjóra sinnti stjórn félagsins starfinu. Starf yfirþjálfara, 50% var auglýst og fór fram formlegt ráðningarferli og viðtöl tekin við umsækjendur. Niðurstaðan var sú að Þórdís Anna Gylfadóttir var ráðin yfirþjálfari Spretts á haustmánuðum. Gulla Jóna sem séð hefur um að reka salinn fyrir Sprett undanfarin ár steig til hliðar og Matthildur tók við hennar verkefni á vordögum og sér núna um bókanir og útleigu á salnum. Ráðinn var nýr framkvæmdastjóri í lok september í 50% starf sem lét síðan af störfum um áramótin. Í lok árs var auglýst eftir umsjónarmanni fasteigna og svæðis, fjöldi umsókna bárust í starfið. Í janúar var gengið frá ráðningu í 100% starf og hóf Raggi störf í Spretti þann 1. febrúar síðastliðinn. Biðlað var til Þórdísar Önnu að taka að sér frekari störf fyrir félagið frá áramótum sem hún tók að sér og hefur Þórdís verið í 50% starfi fyrir Sprett síðan í byrjun árs til viðbótar við yfirþjálfarastöðu. Fyrirhugað er að félagið ráði ekki framkvæmdastjóra að svo stöddu heldur verður rekstur félagsins samvinnuverkefni milli Þórdísar Önnu og Ragga og munu þau skipta með sér verkum.
Mig langar að nota tækifærið og árétta fyrir félagsfólki samskipti við starfsfólk. Það er afar krefjandi að starfa fyrir félagasamtök eins og Sprett og félagsfólk vill að hlutirnir gerist hratt á tíma sem hentar þeim. Mig langar að biðla til félagsmanna að virða frítíma starfsfólksins okkar, senda tölvupóst eða beiðni í gegnum beiðnagáttina á nýju vefsíðunni okkar. Þegar verið er að senda skilaboð á Facebook, hringja í persónuleg símanúmer starfsfólks á öllum tímum sólarhringsins og/eða sitja fyrir starfsfólki við hesthúsin þeirra er ljóst að okkur gæti reynst erfitt að halda í starfsfólkið okkar þar sem skil milli vinnu og einkalífs verða óljós og þar með álagið óyfirstíganlegt. Hjálpum okkur að vera með skýr skil hjá félaginu okkar milli vinnu og einkalífs.
Nefndir í Spretti
Nefndarstarfið í vetur hefur blómstrað í Spretti og óhætt að segja að við erum virkilega rík af áhugasömum Spretturum. Okkur hefur tekist að ná upp virkni í öllum nefndum en á nefndarkvöldinu var 21 nefnd sem kynnti störf sín.
Metamótsnefnd, Blue Lagoon nefnd, Innviðanefnd, Vallarnefnd, Æskulýðsnefnd, Kvennatöltsnefnd, Reiðveganefnd, Áhugamannadeildarnefnd, Ferðanefnd – Ármenn, Tölvu og tækninefnd, Sjálfbærninefnd, Hrossaræktunarrnefnd, Öryggisnefnd, Yngri flokka ráð, Sprettskórinn, Sprettskonur, Firmanefnd, Fræðslunefnd, Karlatöltsnefnd, Laganefndar og Dymbilvikunefnd.
Auk þessa nefnda eru hópur fólks sem hoppar inn í allskonar verkefni fyrir félagið en tilheyri ekki nefnd. Okkur langar að biðja alla í salnum að standa upp svo við getum klappað fyrir þessum öfluga hópi og þakkað fyrir þeirra frábæra framlag fyrir Sprett.
Stjórn hefur beðið þrjár af þessum 21 nefnd að segja okkur stuttlega frá þeirra störfum á síðasta ári eftir að ég hef klárað skýrslu stjórnar. Stjórn Spretts vill með þessu veita nefndum rödd inn á þennan fund til að þið sjáið breiddina sem starfar fyrir félagið. Það er nefnilega alveg ljóst að Stjórn og starfsfólk gerir ekki nema lítinn hluta í því frábæra starfi sem starfrækt er. Það var ekki auðvelt að velja einungis þrjár nefndir af öllum þessu frábæru nefndum en ég lofa því að á næsta ári verða aðrar þrjár sem koma með kynningu frá sínu starfi inn á aðalfund. Nefndirnar sem hafa verið valdar eru Reiðveganefnd, Sjálfbærninefnd og Æskulýðsnefnd.
Fram á veginn
Við höfum farið í gríðarlega naflaskoðun á félaginu okkar síðustu 12 mánuði og stjórn hefur unnið þétt og vel saman í gegnum þann tíma. Erfiðar ákvarðanir hafa verið teknar og allskonar snúin mál komið upp sem öll hefur verið hægt að leysa. Samstilltur hópur getur áorkað miklu ef við erum sammála um markmið og tilgang vinnunnar. Samhljómur er hvert við stefnum og stefnumörkunin sem ráðist var í síðasta haust varðar veginn okkar fram á við. Við viljum vera fyrirmynd annarra hestamannafélaga eins og stefnan segir og þá þurfum við að vera með góðan rekstrargrundvöll.
Við stefnum á að Sprettur sé sjálfbært í rekstri ásamt því að hafa svigrúm til uppbyggingar og viðhalds inn í framtíðina.
Sprettur stendur á ákveðnum tímamótum, aldrei áður hefur félagið verið skuldlaust og markar það ákveðin tímamót. Sú ofuráhersla sem hefur verið undanfarin ár, að ná inn tekjum til að greiða niður yfirdrátt eða vexti er ekki lengur til staðar. Mikil uppbygging er framundan í vesturhlíðum hverfisins og fjölgun hrossa á svæðinu samhliða því, reikna má með nokkrum þúsunda hrossa til viðbótar þegar að það hverfi verður fullbyggt.
Spurningar eins og:
- Hvernig viljum við að innviðir okkar vaxi með fjölgun hesta á svæðinu?
- Hvernig verður Sprettur samkeppnishæfur í innanhússmótahaldi fram á veginn?
- Hvernig viðhöldum við góðum rekstri hjá félaginu?
- Hvernig viljum við fóstra nýliðun í hestamennskunni á félagssvæði Spretts?
- Hvernig tryggjum við að þær eignir sem við eigum í dag haldi verðmætum sínum þrátt fyrir að aldurinn færist yfir?
Þessar spurningar og svo margar fleiri eru meðal umræðuefna í stjórn á næsta starfsári.
Í lokin vill stjórn þakka Hermanni Vilmundarssyni fyrir sín störf í þágu félagsins með setu sinni í stjórn, framlag Hermanns og reynsla hefur verið verðmæt fyrir stjórnina og hans verður saknað. Mig langar að biðja fólk um að klappa fyrir Hermanni.
Við þökkum kærlega traustið að fá að leiða félagið okkar áfram og horfum björtum augum fram á veginn.