Framkvæmdir á félagsvæði Spretts

Ágætu Sprettarar!

Nú er unnið að ýmsum framkvæmdum á félagssvæði hmf. Spretts og viljum við gera nokkra grein fyrir þeim.

Hafnar eru framkvæmdir við gerð nýs reiðvegar um Grunnuvötn og hefur Loftorka byrjað að viða að sér efni í hann. Efnishaugar sem sjá má á hesthúsasvæðinu að sunnanverðu (gamli Andvari) og vestan við Samskipahöllina eru efni í þann reiðveg.

Vegna þessarar efnissöfnunar og framkvæmda óskum við eftir að að allar hestakerrur verði fjarlægðar af hestakerrustæði á Andvarasvæðinu, sunnan við Andvaravelli og Blesavelli og að þeim verði lagt á hestakerrustæði við Markarveg á Heimsendasvæðinu.

Aðrar framkvæmdir sem unnið er að, er lagfæring á svokölluðum Þríhyrningi fyrir neðan Básaskarð, en á næstu vikum og verður haldið áfram að keyra í svæðið frjóari jarðveg þannig að það verði grasi gróið og nýtanlegt til vor- og sumarbeitar.

Reiknað er með að vinna við lagningu reiðvegarins hefjist ekki síðar en um miðjan júní, en þessa reiðvegar höfum við beðið í mörg ár og hlökkum við mikið til að taka hann í notkun, en með honum opnast nýr hringur, sem líklega verður um 4-5 km. langur.

Við viljum biðja ykkur um að sýna því skilning að framkvæmdunum fylgja tímabundið óþægindi og biðjumst velvirðingar á þeim.

f.h. hmf. Spretts,
Magnús Benediktsson,
framkvæmdastjóri.

Scroll to Top