Fura frá Stóru-Ásgeirsá mætir í kvöld

Fura frá Stóru-Ásgeirsá mætir með knapa sínum Ólafi Ásgeirssyni á Dymbilvikusýningu Spretts sem fram fer í kvöld í nýju reiðhöllinni. Fura sló svo sannarlega í gegn á Stóðhestaveislunni sem fram fór síðustu helgi á Ingólfshvoli. Fura er klárhryssa með 8,34 fyrir hæfileika og fékk meðal annars 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9 fyrir brokk og vilja og geðslag. 

Sérst hefur til margra glæsilegra hrossa á æfingum seinustu daga og stefnir meðal annars Ævar Örn á það að rífa þakið af höllinni þegar hann mætir með hryssur frá Vatnsleysu.

Þjóðlagabandið Brother Grass sem sló í gegn á Hestaati í Hörpunni mæta og taka lagið en þulir kvöldsins verða leikarinn Hilmir Snær og skemmtikrafturinn Sigurjón Gylfason. Húsið opnar klukkan 19:30 en sýningin hefst klukkan 20:30. Miðaverð er einungis 1.500 krónur. 

Sjáumst hress í kvöld á Dymbilvikusýningu Spretts!

Meðfylgjandi mynd er af Furu frá Stóru-Ásgeirsá, ljósmyndari Gunnhildur Birna Björnsdóttir.

Fura frá Stóru-Ásgeirsá
Scroll to Top