Uppskeruhátíð barna og unglinga í Spretti fór fram föstudagskvöldið 18.nóvember. Hátíðin var vel sótt. Boðið var upp á veitingar og skemmtiatriði en skemmtikrafturinn Lalli töframaður mætti og sýndi listir sínar, börnum og fullorðnum til mikillar skemmtunar.
Skipað var barna- og unglingaráð Spretts og stefnt er að því að funda reglulega með nefndinni svo yngstu knaparnir geti komið sínum skilaboðum á framfæri. Nefndina skipa; Elva Rún Jónsdóttir, Hulda Ingadóttir, Óliver Gísli Þorrason, Kári Sveinbjörnsson og Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir. Ef fleiri börn og unglingar í Spretti hafa áhuga á að sitja í nefndinni þá eru þau beðin um að senda póst þess efnis á fraedslunefnd@sprettarar.is
Á hátíðinni voru heiðraðir sérstaklega þeir knapar sem höfðu orðið Íslandsmeistarar á árinu og einnig þeir sem höfðu náð góðum árangri í keppni á erlendri grundu. Veitt voru verðlaun til þeirra sem sköruðu framúr á keppnisvellinum á árinu og veitt voru Hvatningaverðlaun Spretts.
Í barnaflokki varð Apríl Björk Þórisdóttir Íslandsmeistari í slaktaumatölti, T4, á hestinum Bruna frá Varmá.
Í unglingaflokki varð Herdís Björg Jóhannsdóttir Íslandsmeistari í Tölti, T1, á hestinum Kvarða frá Pulu.
Á Norðurlandamóti í hestaíþróttum keppti Sprettarinn Hekla Rán Hannesdóttir fyrir hönd Íslands á hestinum Fylki frá Oddsstöðum með góðum árangri.
Í barnaflokki, stúlkur, var Apríl Björk Þórisdóttir með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2022. Hún tók þátt á Íþróttamóti Spretts og hlaut þar 2.sæti í T3, og Gæðingamóti Spretts þar sem hún náði einnig 2.sæti í barnaflokki. Hún tók þátt á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks og hlaut þar 2.sæti í T3. Á opnu íþróttamóti Geysis sem hún stóð uppi sem sigurvegari í slaktaumatölti barna. Hún reið til úrslita í barnaflokki á Landsmóti hestamanna nú í sumar á hesti sínum Sikil frá Árbæjarhjáleigu og varð Íslandsmeistari í slaktaumatölti barna á hestinu sínum Bruna frá Varmá.
Í barnaflokki, drengir, var Ragnar Dagur Jóhannsson með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2022. Hann tók þátt á opnu íþróttamóti Geysis og opnu íþróttamót Sleipnis og reið þar til úrslita í bæði skiptin. Þessi ungi Sprettari tók einnig þátt á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks og endaði þar í 4.sæti í fjórgangi barna. Hann tók þátt í gæðingamóti Spretts og reið sig í 5.sætið og keppti á hryssu sinni Alúð frá Lundum 2.
Í unglingaflokki, stúlkur, var Herdís Björg Jóhannsdóttir með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2022. Hún tók þátt í meistaradeild æskunnar og sigraði þar gæðingaskeið. Hún tók þátt á opnum íþróttamótum Sleipnis og Geysis, og sigraði þar fimmgang á hesti sínum Snædísi frá Forsæti. Hún tók þátt í Reykjavíkurmóti Fáks og stóð sig þar vel, 2.sætið í gæðingaskeiði og 3.sæti í fimmgangi. Á gæðingamóti Spretts og úrtöku fyrir Landsmót varð hún í 2.sæti og á Landsmóti hestamanna reið hún til B-úrslita í feikna sterkum Unglingaflokki. Hún varð 3ja í 100m skeiði á Íslandsmóti barna og unglinga og Íslandsmeistari í tölti unglinga á hesti sínum Kvarða frá Pulu.
Í unglingaflokki, drengir, var Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2022. Hann tók þátt í Meistaradeild Æskunnar og náði þar góðum árangri. Hann tók þátt á opnu Íþróttamóti Sleipnis og reið til úrslita í bæði fjórgangi og slaktaumatölti. Hann tók á íþróttamóti Spretts, varð þar í 3.sæti í slaktaumatölti og 2.sæti í fjórgangi. Á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks reið hann til úrslita í fjórgangi og náði þar 5.sæti. Á gæðingamóti spretts og úrtöku fyrir landsmót reið hann til úrslita og varð annar í mjög sterkum Unglingaflokki á hryssu sinni Aðgát frá Víðivöllum fremri. Á landsmóti reið hann til b-úrslita á sömu hryssu og stóð sig með prýði.
Hvatningarverðlaun Spretts voru veitt á hátíðinni. Við veitingu verðlaunana er horft til eftirfarandi atriða en ekki er gerð krafa um að uppfylla þau öll;
– knapinn hafi tekið þátt í starfi félagsins með einum eða öðrum hætti, s.s. tekið þátt í viðburðum, vetrarleikum, keppni, sýningum og sameiginlegum útreiðartúrum.
– knapinn hafi sýnt af sér kurteisi innan vallar sem utan og samgleðjist sínum félögum.
– knapinn að stíga sín fyrstu skref í keppni og sýnt góðar framfarir í reiðmennsku.
– hver félagsmaður getur eingöngu hlotið hvatningarverðlaun félagsins einu sinni í hverjum flokki.
Hvatningarverðlaun árið 2022 hljóta eftirfarandi knapar, þau voru óvenju mörg í ár þar sem ekki hefur verið verðlaunað árin 2020 og 2021.
Barnaflokkur stúlkur; Íris Thelma Halldórsdóttir, Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir, Kristín Elka Svansdóttir og Kristín Rut Jónsdóttir.
Barnaflokkur drengir; Hilmir Páll Hannesson, Kári Sveinbjörnsson, Rafn Alexander Gunnarsson,
Unglingaflokkur stúlkur; Hulda Ingadóttir, Þorbjörg Helga Sveinbjörnsdóttir og Þórdís Agla Jóhannsdóttir.
Unglingaflokkur drengir; Óliver Gísli Þorrason.
Óskum við öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með frábæran árangur! Æskulýðsnefnd Spretts vill taka það sérstaklega fram að unga kynslóðin í Spretti er einkar glæsileg og stendur sig með mikilli prýði! Það eru sannarlega bjartir tímar framundan.