Skip to content

UPPLÝSINGABRÉF TIL ÍÞRÓTTA-OG ÆSKULÝÐSFÉLAGA OG SAMTAKA

Nú er sumarið að bresta á með samkomum, viðburðum og mannamótum

Aðilar innan ýmissa stofnana hafa tekið höndum saman til þess að minna á forvarnargildið sem við berum
öll ábyrgð á að sinna þegar kemur að ofbeldi. Teknar hafa verið saman helstu upplýsingar sem mikilvægt
er að hafa í huga fyrir sumarið. Við vonumst til þess að íþrótta- og æskulýðsfélög og samtök taki sér tíma
til þess að fara yfir upplýsingarnar og koma þeim í notkun á sínum heimavelli. Þá eru mestar líkur á því að
við munum eiga ánægjulegar samkomur, örugga viðburði og traust mannamót.
Mikilvægt er að íþrótta- og æskulýðsfélög upplýsi sitt fólk um hvers er ætlast til af því hvað varðar hegðun
og framkomu. Til þess þurfa félög að vera með siðareglur og að þar komi fram hvað gerist séu þær
brotnar. Ekki er nóg að eiga fínar siðareglur ofan í skúffu eða faldar djúpt á vefsíðum heldur þurfa félög
að vera dugleg að ræða reglurnar og hvernig eigi að koma fram, sama hvort um starfsfólk, sjálfboðaliða
eða þátttakendur er að ræða.

  • Sérfræðingar Barnahúss hafa unnið gagnvirkt netnámskeið með fræðslu um kynferðislegt
    og kynbundið ofbeldi og áreiti. Námskeiðið fjallar um einkenni barna sem hafa orðið fyrir
    kynferðisofbeldi og hvernig bregðast skuli við ef barn greinir frá ofbeldi. Sjá námskeið.
  • Í íþrótta- og æskulýðslögum segir að ekki sé heimilt að ráða til starfa, eða fá sem sjálfboðaliða,
    einhvern sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot einhvern tíma á lífsleiðinni eða fyrir fíkniefnabrot
    síðustu 5 ár. Sömu lög gefa félögum heimild til þess að fletta aðilum upp í sakaskrá til að kanna
    þessi tvö atriði. Það er mikilvægt að félög sinni þessu og til stuðnings því hafa verið búnar til
    leiðbeiningar við öflun upplýsinga úr sakaskrá. Sjá leiðbeiningar.
  • Á síðasta ári kom út samræmd viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs við ofbeldi, einelti,
    slysum og öðru sem gæti komið upp á. Sjá viðbragðsáætlun.
  • Til hagræðis var settur saman gátlisti fyrir félög við nýráðningu starfsfólks og sjálfboðaliða.
    Á listanum eru atriði eins og að gera meðmælakönnun, að sækja gögn úr sakaskrá, fara yfir
    siðareglur, kynna viðbragðs-áætlun og fara á netnámskeið um kynferðislegt ofbeldi og áreiti.
    Sjá gátlista og leiðbeiningar.
    Íþrótta- og æskulýðsfélög eiga að bregðast við öllum atvikum sem koma í þeirra starfi, hvort sem þau eru
    stór eða smá. Ekki hika við að fá leiðsögn samskiptaráðgjafa, 112, barnaverndarþjónustu eða lögreglu ef
    spurningar eða áhyggjur vakna í sumar. Hægt er að finna fjölbreytt fræðsluefni á vefnum Stopp ofbeld!
    Með ósk um öruggt og ánægjulegt sumar fyrir öll.