Ungir Sprettarar lögðu land undir fót og héldu til Svíþjóðar á hestasýningu þann 30.nóvember síðastliðinn. Óhætt er að segja að það hafi verið mikið stuð!
Aðdragandi ferðarinnar er sá að haustið 2022 var skipað barna- og unglingaráð Spretts en þar sitja sex ungir og hugmyndaríkir Sprettarar sem eru fulltrúar allra barna og unglinga í félaginu. Á fyrsta fundi ráðsins voru þau spurð af yfirþjálfara yngri flokka hvað þeim langaði til að gera og hugmyndin um ferð á hestasýningu erlendis með ungum Spretturum kom fljótt upp – ásamt mörgum öðrum frábærum hugmyndum. Barna- og unglingaráðið er einstaklega öflugt og fljótlega kom í ljós hversu mikilvægt og árangursríkt þetta samtal er milli stjórnenda og yngri flokka. Því var einnig stofnað Ungmennaráð Spretts.
Það er svo m.a. hlutverk yfirþjálfara félagsins að útfæra hugmyndir og óskir yngri flokka ráðanna og koma þeim í framkvæmd með mikilli hjálp frá öflugri Æskulýðsnefnd félagsins. Það er ótrúlegur kraftur og mikill auður í yngri flokkum félagsins. Með þessum hætti finnst þeim þau hafa rödd og geta lagt eitthvað til málanna en mikilvægt er að þau finni að þau séu hluti af félaginu og að þeirra innleg skipti máli.
Eftir að ákvörðun var tekin að fara erlendis á hestasýningu voru skipulagðir fjölmargir fjáröflunarviðburðir, s.s. sjopuvaktir á ýmsum viðburðum Spretts, dósasöfnun, sala á Sprettshúfum, stóðhestahappdrætti, vöfflukaffi og margt fleira. Lagt var upp með að safna sér fyrir flugi og hóteli en mikilvægt var að bjóða upp á fjáröflun svo að sem flestir ættu kost á því að taka þátt. Þeir sem voru duglegastir í fjáröfluninni náðu þessu markmiði og gott betur. Óvæntur bónus var að allir þessir fjáröflunarviðburðir urðu að skemmtilegu hópefli fyrir krakkanna. Það voru allir að vinna að sama markmiðinu, utanlandsferðinni.
Flogið var beint til Stokkhólms og sýningin Sweden International Horse Show heimsótt. Á sýningunni koma fram fjölmargar hestategundir, bæði eru sýningaratriði og keppnir. Grand Prix í dressúr og hindrunarstökki ásamt pony kappreiðum, kerruakstri og margt margt fleira. Sýningin er einstaklega vel staðsett, rétt fyrir utan Stokkhólm, hótelið í einu horni sýningarhallarinnar og stærsta verslunarmiðstöð Skandinavíu beint á móti með úrvali veitingastaða og verslana. Það var því eitthvað aðeins verslað í ferðinni.
Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst að gefa ungum Spretturum tækifæri á að kynnast og tengjast betur hvort öðru. Það er einmitt eitt af því sem yngri flokka ráðin hafa óskað eftir, að þau fái fleiri tækifæri til að hittast án hesta. Hestaíþróttin er einstaklingsíþrótt en það er afar mikilvægt á þessum aldri að þau finni einnig að þau tilheyri liði eða félagi og myndi félagslegar tengingar við sína jafnaldra sem hafa sama áhugamálið, hestaíþróttina.
Það er líka mikilvægt fyrir unga hestamenn að víkka sjóndeildarhringinn og sjá hinn stóra hestaheim. Nú eru þau mörg að stunda nám í Knapamerkjunum og heyra um erlend hestakyn og keppnisgreinar og var þetta því frábært tækifæri til að sýna þeim þetta „live“.
Hópurinn fjárfesti í neon bleikum Sprettspeysum sem var einkennisbúningur hópsins. Vallarmyndavélinni var oft beint að þeim í stúkunni og þeim varpað upp á stóra skjáinn sem vakti mikla lukku. Julie Christiansen bauðst til að hitta unga Sprettara og sagði þeim allt sem þau vildu vita um Kveik frá Stangarlæk en þau kepptu í tölti á sýningunni. Stjórnendur sýningarinnar höfðu samband, þau höfðu frétt af hópnum á staðnum, og buðu ungum Spretturum baksviðs til að sjá hestana og upphitunarsvæðið. Erlent hestatímarit óskaði eftir viðtali sem yfirþjálfari yngri flokka veitti og hafa fleiri hestamiðlar sett sig í samband og óskað eftir ferðasögunni.
Gaman var að sjá hversu samheldin hópurinn var. Smá ruglingur varð í sætabókun í flugvélinni sem varð til þess að hópurinn dreifðist um vélina en krakkarnir höfðu lausn við því og þjöppuðu sér 5 og 6 saman í hverja sætaröð. Á kvöldin sátu þau saman í matsal hótelsins og höfðu gaman. Eitthvað var um prakkarastrik, líkt og dyraat hjá yfirþjálfara, sem var mikið hlegið að.
Þetta var sannkölluð ævintýraferð ungra Sprettara. Dýrmæt upplifun og frábærar minningar. Barna- og unglingaráð Spretts hefur nú þegar óskað eftir fundi við yfirþjálfara yngri flokka því þau hafa fleiri hugmyndir sem þau vilja ræða…