Skip to content

Réttindanámskeið: Sjúkraþjálfun á hestbaki

Æfingastöðin stendur fyrir réttindanámskeiði í sjúkraþjálfun á hestbaki, dagana 23.-27. september 2024. Námskeiðið er tvískipt viku í senn, 35 klst. í hverju sinni. Fyrri hluti námskeiðsins fer fram í sept. 2024 og seinni hlutinn vor/haust 2025. Þátttakendur vinna að verkefni (tilfellalýsingu) milli námskeiða sem skilað verður og kynnt á seinni hluta námskeiðsins í maí. Að báðum námskeiðum loknum munu þátttakendur öðlast réttindi til að veita þessa meðferð að fengnu samþykki Sjúkratrygginga Íslands.

Farið verður yfir sögulegan og fræðilegan bakgrunn þróunar sjúkraþjálfunar á hestbaki á Íslandi og erlendis. Námskeiðinu er ætlað að auka þekkingu sjúkraþjálfara til að veita þessa tegund meðferðar í sínu starfi. Farið verður yfir grunnþætti hestamennskunnar, þekkingu á hestinum, hreyfingum hans og geðslagi. Þá verður unnið að verklegum æfingum á hestbaki þar sem reiðmennska, tilsvarandi Knapamerkjum I og II er lögð til grundvallar. Eftir námskeiðin eiga þátttakendur að geta nýtt sér hestinn, hreyfingar og nærveru hans í sjúkraþjálfun til að bæta heilsu, auka færni og þátttöku knapans í daglegu lífi.

Hluti af kennslunni er verklegur og mun fara fram í reiðgerði utandyra. Þátttakendur fá að upplifa á eigin líkama hvaða áhrif hesturinn getur haft á líkama þeirra með setu á hestunum og með áhorfi á aðra þátttakendur. Á báðum námskeiðunum mun einnig verða leitað eftir sjálfboðaliðum til að sýna meðferð á.
Sjúkraþjálfun á hestbaki var viðurkennd sem meðferðarform innan sjúkraþjálfunar 2006. Æfingastöðin hefur í tvo áratugi boðið upp á sjúkraþjálfun á hestbaki og hefur aðsóknin allajafna verið mikil.

Hafi þátttakendur tök á verður í boði að taka með eigin hesta til að nota í verklegu þáttum námskeiðsins. Hagabeit í nágrenni Reykjadals verður í boði þá fimm daga meðan á námskeiðinu stendur. Vegna láns á hestum má hafa samband við Guðbjörgu í netfang: [email protected]

Fyrir hvern er námskeiðið? 
Námskeiðið er einungis ætlað sjúkraþjálfurum. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiði eru 12 manns.

Leiðbeinendur: 
Þorbjörg Guðlaugsdóttir, sjúkraþjálfari MSc og Guðbjörg Eggertsdóttir,sjúkraþjálfari MSc, MPH sóttu réttindanám og viðbótarmenntun í Gautaborg í Svíþjóð hjá Suzanne von Dietze reiðkennara og sjúkraþjálfara 2006 og 2007. Þær fengu þar með réttindi til að veita þessa meðferð og til að miðla þeirri þekkingu og hafa þegar haldið eitt réttindanámskeið 2008-2009.

Hanna Marteinsdóttir sjúkraþjálfari, MA á RGR tók réttindanám í sjúkraþjálfun á hestbaki 2008-2009 og hefur frá þeim tíma unnið með Þorbjörgu og Guðbjörgu við sjúkraþjálfun á hestbaki á vegum Æfingastöðvarinnar í reiðhöll Gusts í Kópavogi og í reiðhöll Fáks í Víðidal.

Henna Johanna Siren og Sigrún Sigurðardóttir reiðkennarar hafa viðurkennd réttindi til að kenna Knapamerkin. Þær hafa langa reynslu af reiðkennslu og Sigrún kynnti sér reiðmennsku fyrir fatlaða í Englandi og hefur boðið upp á námskeið í reiðmennsku fyrir fatlaða.

Dagsetning og staður 
23.-27. september 2024
Staðsetning: Reykjadalur í Mosfellsdalog í reiðgerði við Laugaból í Mosfellsdal.

Námskeiðsgjöld og greiðsluskilmálar
Námskeiðsgjald fyrir Réttindanámskeið (fyrri hluta) er 240.000 kr.*Ekki er boðið upp á mat en kaffi og te er innifalið í námskeiðsgjaldi. *Þátttökugjald og skráning á seinni hluta námskeiðsins verður auglýst síðar. Skráning fer fram í vefverslun SLF: https://www.kaerleikskulan.is/products/rettindanamskeid-sjukrathjalfun-a-hestbaki-fyrri-hluti

Forföll/afskráningu þarf að tilkynna skriflega a.m.k. hálfum mánuði fyrir námskeiðsdag með því að senda tölvupóst á [email protected] Æfingastöðin áskilur sér rétt til þess að innheimta skráningar- og umsýslugjald ef tilkynning berst eftir að skráningu á námskeið er lokið.

Viðburður á FACEBOOK: