Stjórn Spretts hefur gengið frá ráðningu yfirþjálfara félagsins. Þórdís Anna Gylfadóttir hefur verið ráðin í starfið sem hefst núna sem 40% starf. Þórdís mun hefja störf nú í ágúst enda mikilvægt að geta farið að hefja skipulag og undirbúning fræðslu – og námskeiðahalds fyrir komandi vetur.
Staða yfirþjálfara var auglýst í lok júní og að umsóknarfresti liðnum var boðað til atvinnuviðtala og í framhaldi af þeim var ákveðið að gera samstarfssamning við Þórdísi Önnu, en hún þótti uppfylla skilyrði til starfsins.
Þórdís ætti að vera öllum félagsmönnum kunnug, hún hefur verið yfirþjálfari yngri flokka Spretts síðan 2021 og komið að mörgum nefndum og verkefnum fyrir félagið. Þórdís hefur verið dugleg að mennta sig í kringum hestamennskuna og það mun klárlega nýtast vel í nýju starfi sem yfirþjálfari Spretts.
Þórdís er menntaður reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum auk diplómanáms í viðburðastjórnun. Hún hefur einnig lokið meistaranámi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og tekið nám í þjálfunarlífeðlisfræði hrossa.
Hlutverk yfirþjálfara Spretts er að vera með faglega umsjón með allri kennslu og námskeiðshaldi á vegum félagsins í samvinnu með fræðslunefnd ásamt því að halda utan um yngri flokka starfið í samvinnu við æskulýðsnefnd. Yfirþjálfari starfar í samvinnu við stjórn félagsins, framkvæmdastjóra, nefndir og barna-, unglinga- og ungmennaráð Spretts. Yfirþjálfari mótar stefnu í námskeiðahaldi og fræðslumálum og vinnur með stjórn að því að móta verkferla og vinnulag.
Markmið starfsins er að auka þátttöku og þekkingu félagsmanna á hestamennsku og að Sprettur verði fyrirmyndarfélag í menntamálum hestamanna.
Stjórn Spretts telur að ráðning Þórdísar sé mikið gæfuspor fyrir félagið og félagsmenn og liður í því að halda áfram því frábæra starfi sem hefur verið unnið í fræðslu og æskulýðsmálum síðustu árin. Við bjóðum Þórdísi velkomna í starf yfirþjálfara og hvetjum alla til að skoða vel framboð vetrarins hvað varðar kennslu og fræðslu því framundan er metnaðarfullt og fjölbreytt starf.
Hægt er að hafa samband við Þórdísi í gegnum tölvupóstfangið [email protected].