Skip to content

Ráðning framkvæmdastjóra

Stjórn Spretts gekk í dag frá ráðningu á Þórunni Helgu Sigurðardóttur, nýjum framkvæmdastjóra Spretts sem kemur til starfa mánudaginn 23. september í 50% starf. Þórunn gæti verið einhverjum Spretturum kunn, en hún stundaði sína hestamennsku í Spretti fram til ársins 2021 og hefur setið á skólabekk í Reiðmanninum með einhverjum Spretturum.

Alls sóttu 12 einstaklingar um starfið. Það bárust mjög góðar umsóknir sem er ánægjuleg staða fyrir stjórn að hafa úr fjölbreyttum og hæfum umsækjendum að velja. 

Þórunn er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa tekið nám hjá Yale í stjórnun og markaðsmálum og lært leiðtogafræði í Barcelona. Hún er því talsvert menntuð á sviði fjármála, markaðsmála og stjórnunar ásamt því að hafa tekið fjöldann allan af námskeiðum sem styðja hana í starfinu. Þórunn hefur starfað sem framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis undanfarið, áður sinnti hún sölu og markaðsmálum hjá þyrluþjónustu og jafnframt starfaði hún í sölu og markaðsmálum fyrir Bláa Lónið í um 11 ára skeið.

Vonandi taka allir Sprettarar vel á móti Þórunni og gefa henni tækifæri til að stýra félaginu okkar áfram veginn.

Þórunn mætir á félagsfundinn miðvikudaginn 25. september og kynnir sig fyrir félagsmönnum. 

Kveðja Stjórn Spretts