Skip to content

Pistill frá nýjum formanni Spretts

Kæru Sprettarar

Ég vil byrja á því að þakka stuðninginn og það traust sem mér er veitt með að vera valin sem formaður félagsins okkar allra. Mig langar að þakka fyrri formanni og fráfarandi stjórn kærlega fyrir þeirra óeigingjörnu vinnu og þann tíma sem þau hafa lagt til félagsins undanfarin ár. Við erum stærsta hestamannafélag landsins og til okkar er horft sem fyrirmynd annarra félaga. 

Fyrstu fundur nýrrar stjórnar var í gær og er ljóst að saman er kominn metnaðarfullur hópur sem mun vinna vel saman til hagsbóta fyrir félagið okkar. Nýja stjórnin hefur skipt með sér verkum og vil ég upplýsa ykkur. 

Formaður: Jónína Björk Vilhjálmsdóttir

Varaformaður: Katla Gísladóttir

Gjaldkeri: Lárus Sindri Lárusson

Ritari: Haraldur Pétursson

Meðstjórnendur: Davíð Áskelsson, Hermann Vilmundarson og Sigurbjörn Eiríksson.

Ný stjórn er að setja sig inn í þau fjölmörgu mál sem fyrri stjórn hélt á. Eitt af málunum er undirbúningur Landsmóts í sumar sem haldið er af Spretti og Fáki á félagssvæði Fáks. Mannauðurinn í félaginu er mikill og eftirsóknarvert að félagið okkar standi öflugt við hlið Fáks í undirbúningi og framkvæmd mótsins. 

Stjórn mun hittast á þriðjudögum. Ef félagsmenn eru með hugmyndir, ábendingar eða erindi til stjórnar þá er hægt að senda póst til okkar, á netfangið [email protected]. Það er mikið verðmæti að fá ykkur með í lið er varðar hugmyndum og þátttöku í starfinu. Næst á dagskrá í félaginu okkar er Blue lagoon keppnin á fimmtudaginn, Kvennatölt um helgina, þriðju vetrarleikarnir Spretts, hreinsunardagur og firmakeppni. 

Kveðja Jónína Björk, formaður Spretts tölvupóstfang: [email protected]