Síðastliðinn þriðjudag fór fram stefnumótun hjá okkur í Spretti. Fundurinn var vel auglýstur, bæði á miðlum félagsins sem og á fréttaveitu Eiðfaxa. Rúmlega 30 manns mættu, gæddu sér á yndislegri súpu frá Matthildi og tóku þátt í vinnunni. Umræðunni var stýrt af Petru Björk og Jónínu Björk formanni Spretts. Samtalið var uppbyggilegt, jákvætt og ljóst er að í félaginu okkar er mikið af metnaðarfullum Spretturum sem sjá framtíðina bjarta í félaginu sínu.
Vinnan snérist um að skilgreina hlutverk Spretts, framtíðarsýn og gildi fyrir félagið okkar ásamt því að marka þau mikilvægu verkefni sem þarf að vinna að til að framtíðarsýn Spretts geti orðið að veruleika. Það eru því næg verkefni framundan sem verður gaman fyrir okkur öll að takast á við. Þessi vinna er grundvöllur fyrir því að geta átt dýpra samtal við sveitarfélögin varðandi áframhaldandi samvinnu.
Stefnuhúsið mun marka þá vinnu og þann fókus sem stjórn, starfsfólk, nefndir og sjálfboðaliðar munu vinna að hjá félaginu næstu misserin.
Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í vinnunni og lögðu sitt af mörkum.