Skip to content

Góð uppskera 2024

Sameiginleg uppskeruhátíð hestamannafélaganna Spretts og Fáks fór fram á föstudagskvöldið 22 nóvember í veislusal Spretts. Góð mæting var á hátíðina og umgjörðn öll sú glæsilegasta. Þar voru verðlaunaðir þeir knapar í ungmenna- og fullorðinsflokki sem þóttu skara fram úr á árinu. Auk þess var Sverrir Einarsson fyrrum formaður Spretts heiðraður fyrir óeigingjarnt starf fyrir okkur Sprettara sem og fyrir það að koma á þessu öfluga og árangursríka samstarfi sem var með Fáki nú í sumar um Landsmótið 2024.

Hér á eftir fylgja verðlaunahafa hestamannafélagsins Spretts og upptalningar á afrekum þeirra. Myndir fá verðlaunaafhendingunni er aðgengilegar á Facebook síðu Spretts.

Fimm af sjö ungum Spretturum sem kepptu fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu sl sumar voru heiðraðir á uppskeruhátíðinni, það voru þau Guðný Dís Jónsdóttir, Hekla Rán Hannesdóttir, Herdís Björg Jóhannsdóttir, Hulda María Sveinbjarnardóttir, Sigurður Baldur Ríkharðsson. Ragnar Bjarki og Elva Rún voru heiðruð fyrr í þessum mánuði á uppskeruhátíð barna og unglinga.

Ungmennaflokkur stúlkur
Sú stúlka sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í ungmennaflokki er Guðný Dís Jónsdóttir.

Guðný Dís hefur átt góðu gengi að fagna í fjórgangi á hestinum Hraunari frá Vorsabæ II. Saman hafa þau sigrað fjórgang á íþróttamóti Spretts, íþróttamóti Geysis og Reykjavíkurmeistaramóti ásamt því að vera Íslandsmeistarar í fjórgangi ungmenna. Saman riðu þau til úrslita í feikna sterkum Ungmennaflokki á Landsmóti og uppskáru þar 3ja sætið.

Guðný Dís hefur einnig keppt í gæðingaskeiði með góðum árangri á Ásu frá Fremri- Gufudal og sigraði meðal annars sinn flokk á íþróttamóti Spretts, sigraði sinn flokk á Suðurlandsmóti, varð önnur á íþróttamóti Geysis og í 5.sæti á Íslandsmóti.

Guðný Dís hefur einnig keppt í tölti og slaktaumatölti með góðum árangri og má þar helst nefna 2.sæti í tölti á Íslandsmóti.

Guðný Dís var valin í U-21árs landslið Íslands og tók þátt á Norðurlandamóti í ágúst síðastliðnum. Hún var einnig ein af fimm knöpum tilnefnd til Efnilegasta knapa ársins af LH.

Innilega til hamingju Guðný Dís með framúrskarandi árangur.

Ungmennaflokkur drengir

Sá drengur sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í ungmennaflokki er Sigurður Baldur Ríkharðsson. Sigurður Baldur hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisvellinum á síðastliðnu keppnistímabili á heimaræktuðum hrossum, frá Traðarlandi.

Sigurður Baldur sigraði fimmgang á íþróttamóti Spretts á Myrkva frá Traðarlandi og einnig slaktaumatölt á sama móti á Lofti frá Traðarlandi.

Sigurður Baldur reið til úrslita í slaktaumatölti á íþróttamóti Geysis og einnig á Íslandsmóti á hestinum Lofti frá Traðarlandi þar sem þeir uppskáru annað sætið. Sigurður Baldur reið til úrslita í feikna sterkum Ungmennaflokki á Landsmóti hestamanna í sumar og endaði þar í 8.sæti á Lofti frá Traðarlandi.

Sigðurður hefur einnig keppt í tölti á Trymbli frá Traðarlandi með góðum árangri og Kjark frá Traðarlandi í skeiðgreinum.

Sigurður Baldur var valinn í U-21 árs landsliðs Íslands og tók þátt á Norðurlandamóti í ágúst síðastliðnum.
Innilega til hamingju Sigurður Baldur með framúrskarandi árangur.

Áhugamannaflokkur konur

Sú kona sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í áhugamannaflokki kvenna er Auður Stefánsdóttir.

Auður sigraði slaktaumatölt á hryssu sinni, Söru frá Vindási, á bæði áhugamannamóti Íslands og Suðurlandsmóti. Þær stöllur hafa einnig gert góða hluti í töltkeppni og riðu til úrslita á Íþróttamóti Spretts, Íþróttamóti Sleipnis, Reykjavíkurmeistaramóti og Suðurlandsmóti. Auður og Sara frá Vindási sigruðu einnig B-flokk áhugamanna á Gæðingamóti Spretts.

Auður hefur einnig átt góðu gengi að fagna í fjórgangi á hesitnum Runna frá Vindási sem og Gusti frá Miðhúsum í slaktaumatölti.

Innilega til hamingju Auður með framúrskarandi árangur.

Áhugamannaflokkur karlar

Sá karl sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í áhugamannaflokki karla er Hermann Arason.

Hermann uppskar annað sætið í B-flokki á Gæðingamóti Spretts á hryssunni Náttrúnu Ýr frá Herríðarhóli.

Hermann reið til sigurs í töltkeppni á opnu íþróttamóti Sleipnis á Náttrúnu Ýr frá Herríðarhóli og einnig í slaktaumatölti á Gusti frá Miðhúsum á sama móti.

Á opnu íþróttamóti Dreyra reið Hermann til sigurs í fimmgangi á Ósk frá Vindási og til úrslita í tölti og slaktaumatölti á sama móti á Sprota frá Vindási og Gusti frá Miðhúsum.

Hermann hefur einnig átt góðu gengi að fanga í gæðingaskeiði á Þotu frá Vindási.

Innilega til hamingju Hermann með framúrskarandi árangur.

Atvinnumannaflokkur konur

Sú kona sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í atvinnumannaflokki kvenna er Valdís Björk Guðmundsdóttir.

Valdís Björk sigraði B-flokk gæðinga á gæðingamóti Spretts og tryggði sér þar með þátttökurétt á Landsmóti hestamanna á hryssunni Lind frá Svignaskarði. Þær voru svo hársbreidd, eða einni kommu, frá því að ná inn í B-úrslit í B-flokki á Landsmóti hestamanna síðastliðið sumar.

Valdís Björk hefur einnig átt góðu gengi að fanga í fjórgangi á Hervari frá Svignaskarði og Krika frá Krika.

Innilega til hamingju Valdís með framúrskarandi árangur.

Atvinnumannaflokkur karlar

Sá karl sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í atvinnumannaflokki karla er Jóhann Ragnarsson.

Jóhann hefur átt góðu gengi að fagna í skeiðgreinum og þá sérstaklega í gæðingaskeiði og 150m skeiði á Þórvöru frá Lækjarbotnum. Jóhann og Þórvör uppskáru 2. sætið á Íslandsmóti í gæðingaskeiði, og voru í úrslitasæti á Landsmóti í sömu grein.

Jóhann og Þórvör voru einnig í efstu sætum í 150m skeiði í Meistaradeildinni og á íþróttamóti Geysis.

Jóhann reið til úrslita í B-flokki gæðinga á Gæðingamóti Spretts á Karólínu frá Pulu og sigraði A-flokk gæðinga á gæðingamóti Sleipnis á Kolbeini frá Hrafnsholti.

Jóhann hefur einnig sýnt nokkur hross til dóms á kynbótabrautinni og má þar helst nefna heimaræktaða stóðhestinn Svarta-Skugga frá Pulu sem hlaut hvorki meira né minna en 10 fyrir fet í kynbótadómi í vor.

Innilega til hamingju Jóhann með framúrskarandi árangur.

Keppnisknapi Spretts 2024

Keppnisknapi Spretts 2024 hefur náð eftirtektarverðum árangri á keppnisvellinum. Að baki árangrinum liggur mikil vinna og ástundun. Knapinn kemur fram af kurteisi, sýnir auðmýkt og áhuga á að læra meira og verða betri, er prúður reiðmaður og er til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Knapinn sýndi fram á fjölhæfan árangur í mismunandi keppnisgreinum, s.s. fjórgangi, fimmgangi, tölti, slaktaumatölti og gæðingaskeiði á síðastliðnu keppnistímabili. Knapinn sem um ræðir var valinn til þátttöku á Norðurlandamóti fyrir Íslands hönd, reið til úrslita á Landsmóti, varð Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari í fjórgangi. Knapinn var einnig ein af fimm sem tilnefnd voru til efnilegasta knapa ársins af Landssambandi hestamannafélaga. 

Keppnisknapi Spretts árið 2024 er Guðný Dís Jónsdóttir.