Í dag lýkur fordómum á fyrri viku kynbótasýninga í Spretti 2024. Á morgun föstudag, verður yfirlitssýning á þeim hrossum sem komið hafa til dóms. Sýningin hefur gengið mjög vel og góð stemning er á meðal knapa, starfsmanna og gesta sýningarinnar.
Í gær féll heimsmet á Samskipavellum þegar Helga Una Björnsdóttir sýndi hryssuna Hildi frá Fákshólum í hæsta dóm sem hryssa hefur hlotið. Hildur, sem er 7 vetra gömul, hlaut í aðaleinkunn 8,91 en fyrir sköpulag hlaut hún 8,69 og fyrir hæfileika 9,03. Sannarlega glæsilegur árangur og óskum við ræktanda, eiganda og sýnanda innilega til hamingju.
Okkar fólk sem stendur að sýningunni eiga stórt hrós skilið fyrir þeirra framlag en án þeirra væri sýningin ekki á þessum stað. Erla Guðný hefur haldið utan um sýninguna og passað að allt gangi upp, Haukur hefur séð um að völlurinn sé í topp standi og Matthildur sér til þess að starfsfólk sýningarinnar fái að borða.
Á morgun, föstudag, verður yfirlitssýningin og ljóst er að spennandi hestar verða í brautinn í Spretti. Klukkan 11:30 opnum við í hádegismat fyrir gesti en búið er að stóla upp í rennunni í Samskipahöllinni í einskonar mathallarstemmingu. Matthildur mun bjóða gestum uppá kótilettur í raspi á 2500 krónur máltíðin. Hlökkum til að sjá sem flesta í Spretti á morgun.