Skip to content

Framboð til formanns Spretts 2024

Kæru félagar, Jónína Björk heiti ég og býð mig fram til formanns Spretts.


Ég brenn fyrir að vinna með fólki, góð samvinna og árangur hvetja mig áfram. Ég nýt mín við að
takast á við áskoranir og ná settum markmiðum. Ég hef lokið meistaraprófi í markaðsfræði og
alþjóðaviðskiptum, klárað kennsluréttindi frá Háskóla Íslands og námslínu frá Háskólanum í Reykjavík
sem kallast ábyrgð og árangur stjórnarmanna. Ég er Sviðsstjóri þróunar hjá EFLU og ég sit einnig í
framkvæmdarstjórn fyrirtækisins.


Ég hef mikinn áhuga á Spretti og hef verið virk í störfum fyrir félagið. Ég hjálpaði stjórn Spretts og
framkvæmdarstjóra að kynna félagið við stofnun þess, setti upp fyrstu vefsíðu félagsins og ritstýrði
síðunni fyrstu árin. Hef komið að mótahaldi með fjölbreyttum hætti. Var formaður æskulýðsnefndar
þar sem ég mótaði starf yfirþjálfara og kom að ráðningu Þórdísar Önnu Gylfadóttur sem er mikið
gæfuspor fyrir félagið okkar.


Aðeins um mig sem hestakonu: Ég er fædd inn í mikla hestafjölskyldu og héldum við hesta fyrstu árin
mín í Fáki og síðar á Fluguvöllum. Frá unga aldri hef ég ferðast um hálendi Íslands á hestum með
fjölskyldu og vinum. Ég og eiginmaður minn, Sigurður Halldórsson, stundum hestamennskuna okkar í
dag frá fjölskylduhesthúsinu á Landsenda þar sem fjórar kynslóðir Sprettara hafa notið þess að ríða
út saman. Við hjónin erum með þrjú börn, stúlku í keppni og tvo drengi sem njóta sín best á
útreiðum og í hestaferðum.


Sprettur stendur á tímamótum, framundan eru tækifæri og áskoranir sem mikilvægt er að nálgast
rétt. Það þarf að efla menningu félagsins, skapa umgjörð sem félagsmenn vilja taka þátt í og vinna að
hag og framtíð Spretts.
Þau mál sem ég ætla að leggja áherslu á eru:

  1. Styrkja fárhagslegan stöðuleika félagsins
  2. Fara í stefnumörkun með félagsmönnum um framtíðarsýn Spretts
  3. Endurskoða nefndir félagsins og efla sjálfboðaliðastarf
  4. Halda áfram að styðja við öflugt æskulýðsstarf
  5. Auka gagnsæi í störfum stjórnar.

Reynsla mín í starfi, samskiptahæfileikar, menntun og ástríða fyrir félagsstörfum tel ég muni nýtast
vel í hlutverki formanns Spretts. Ég hef metnað til að finna leiðir svo við styrkjum samstöðu
félagsmanna, auka upplýsingamiðlun og hvetja til aukinnar þátttöku í því að byggja félagið okkar upp
og draga það áfram. Með því að starfa saman getum við náð þeim markmiðu sem við setjum okkur
og stuðlað saman að þróun og vellíðan í félaginu okkar.


Ég bið ykkur um að veita mér tækifæri til þess að leiða Sprett sem formaður félagsins.
Kveðja Jónína Björk Vilhjálmsdóttir