Bendum Spretturum á þessa frétt sem birtist á heimasíðu LH á dögunum.
Ítarefni frá mótasviði LH um mótaþátttöku og félagsaðild.
Aðeins félagsmönnum Hestamannafélaga er heimil þátttaka í opinberum mótum innan vébanda LH. Keppnisrétt öðlast íþróttamenn er þeir hafa verið skráðir á félagsskrá hlutaðeigandi hestamannafélags.
Í reglugerð um Landsmót og fjórðungsmót, grein 5, kemur fram að þátttökurétt á Lands- og fjórðungsmótum hafa félagsmenn sem skráðir eru í félagatali hestamannafélags við starfsskýrsluskil þann 15. apríl ár hvert.
Keppandi getur aðeins tekið þátt í mótum í nafni eins félags á einu keppnistímabili, þ.e.a.s. Keppandi getur bara keppt fyrir eitt félag á árinu.
Rétt er að fara einnig yfir reglur sem gilda varðandi íþróttakeppni og svo gæðingakeppni.
Í A- og B- flokki gæðinga í gæðingakeppni telst hesturinn sem keppandi á mótinu en ekki knapi hans. Það þýðir að eigandi hestsins þarf að vera skráður í það hestamannafélag sem hesturinn keppir fyrir og má ekki keppa fyrir annað félag á því keppnisári.
Í yngri flokkum gæðingakeppni er það knapinn sem keppir til móts við hestinn og því þarf knapinn að vera félagi í viðkomandi hestamannafélagi ásamt því að hesturinn er í eigu félagsmanns að hluta til eða öllu leyti.
Í íþróttakeppni er það knapinn sem er keppandi og þarf að vera skráður í félagið sem hann keppir fyrir, og eignarhald hestsins er ekki ráðandi þáttur þar.
Það er mikilvægt nú í upphafi keppnistímabils að knapar velji hvaða félag þeir keppa fyrir á árinu, og passa að skráningar á mót og deildir vetrarins séu réttar með það í huga að knapinn keppi einungis fyrir eitt félag yfir keppnisárið.
Skrifstofu LH hafa borist ýmsar spurningar um þetta og þykir því mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir.
Deildirnar allar líkt og meistaradeild, 1. deild og æskulýðsdeildirnar meðal annars, sem eru í gangi yfir veturinn eru íþróttamót og hestur getur tekið þátt þar alveg óhindrað og farið í gæðingamót hjá sínu félagi, en knapi þarf að vera rétt skráður í Sportfeng og keppa fyrir sitt félag.
Val hrossa og keppenda á Landsmót og fjórðungsmót
Val hrossa í gæðingakeppni og keppenda í barna- unglinga- og ungmennakeppni á lands- og fjórðungsmótum skal fara fram hjá félögunum eftir lögum og reglum LH um gæðingakeppni og barna- unglinga- og ungmennakeppni.
Haldi hestamannafélög úrtöku í tveimur umferðum skal leitast við að sama dómaragengi dæmi báðar umferðir. Ekki mega líða meira en tveir dagar á milli umferða. Þátttakanda er heimilt að taka þátt í hvorri umferð sem er eða báðum.
Barni, unglingi og ungmenni er heimilt að mæta með fleiri en eitt hross í forkeppni í úrtöku sbr. reglur um keppni í yngri flokkum, grein 1.7.2 í reglum um gæðingakeppni. Einkunnir í forkeppni skulu ávallt ráða vali hrossa á Lands- og fjórðungsmót en ekki röðun úr úrslitakeppni sé hún viðhöfð. Þá er félögum heimilt að hafa tvær umferðir og gildir þá betri árangur. Sé hærri einkunn keppenda, tveggja eða fleiri, jöfn, skal litið til einkunnar úr hinni umferðinni. Skiptir þar ekki máli hvort það er fyrri eða seinni umferð. Séu hestar jafnir skulu þeir fá sæti á Landsmóti fyrir sitt félag.
Félögum er heimilt að halda sameiginlegar úrtökur. Úrtökur skula auglýstar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Ekki er heimilt að skrá hross í úrtöku fyrir Lands- og fjórðungsmót hjá öðru félagi en eigandi viðkomandi hross er skráður í, nema um sameiginlega úrtöku sé að ræða. Það sama á við um keppendur í barna-, unglinga- og ungmennaflokki, þau mega ekki skrá sig í úrtöku hjá öðru félagi en þeirra eigin.
Haldi félag ekki úrtöku sjálft en félagar þess hafa áhuga á að komast á Landsmót verður stjórn félagsins að setja sig í samband við eitt ákveðið hestamannafélag og auglýsa úrtöku með því félagi.
Til viðbótar þeim hestum sem vinna sér þátttökurétt á Landsmóti í öllum flokkum í gegnum úrtökur hestamannafélaganna, fá efstu 6 hestar á stöðulistum sem ekki komust inn í gegnum úrtökur hjá sínum félugum, þátttökurétt á Landsmóti.
Nánar er hægt að lesa um efnið í reglugerð um Landsmót og fjórðungsmót og Reglugerð um mótahald á Íslandi á heimasíðu LH.