Í vor var opnað aftur fyrir rekstur á reiðgötum félagsins. Til þess að hrossin hlaupi í rekstrinum er í einhverjum tilfellum notaður bíll og keyrt á eftir stóðinu og jafnvel flauta bílsins notuð.
Nokkuð magn af kvörtunum hefur borist stjórn vegna rekstrarhringsins og höfum við borið málið undir reiðveganefnd. Ljóst er að sjónarmiðin í þessu eru mörg og erfitt er að gera öllum til geðs þó stjórn ætli að gera tilraun til þess.
Nokkrar staðreyndir: Hestar sem eru rólegir í hesthúsunum sínum á Fluguvöllum og þar í kring að morgni til, þeim líður oft ekki vel þegar verið er að nota flautuna óspart fyrir utan hesthúsið þeirra og þar með eru framkvæmdar aðstæður sem geta valdið streitu í hestum á húsi. Hestarnir sem eru úti að hlaupa fá flestir spennulosun við það að fá að hlaupa frjálsir í nokkra hringi. Þegar verið er að keyra á reiðveginum kostar það meira viðhald á reiðvegunum sem kallar á fjárútlát fyrir félagið. Þjöppun reiðvegarins af völdum bíla er til staðar og rýrir gæði reiðvegarins. Lögum samkvæmt er akstur vélknúinna ökutækja bannaður á reiðstígum nema í bráðatilvikum og við viðhald reiðstíganna.
Stjórn hefur skoðað málið frá öllum hliðum. Niðurstaðan er sú að banna notkun vélknúinna ökutækja á reiðvegunum nema þegar um bráðatilfelli eða viðhald reiðstíga er að ræða. Rekstrarhringurinn heldur áfram að vera í boði fyrir félagsmenn en til þess að fá hrossin til að hlaupa þarf að nota til þess annað en vélknúin ökutæki. Þessi breyting á einnig við keyrslu vélknúinna ökutækja til að reka hross á gamla hringvellinum.
Með von um að þessi lausn komi til móts við sem flesta félagsmenn.
Kveðja Stjórnin