Nú þegar 2024 er á enda vert að líta um öxl og horfa á liðið ár. Hestamannafélagið Sprettur hefur blómstrað á árinu 2024 og margt verið í gangi og virkilega gaman að horfa til baka og sjá hversu vel hefur tekist til. Það voru skrifaðar 339 fréttir á vefsíðuna okkar sprettur.is, um 600 manns skráðu sig á námskeið á árinu, 19 virkar nefndir starfandi hjá félaginu og haldnir voru um 35 stjórnarfundir.
Fræðslu og afreksmál:
Það hafa verið fjölmörg námskeið í boði fyrir félagsmenn og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Fræðslunefndir á höfuðborgarsvæðinu tóku sig saman á árinu og eru að auka samvinnu á fræðslu fyrir hestamenn á svæðinu. Ungmenni settu af stað æfingatíma þar sem dómarar komu og leiðsögðu knöpum og ásamt því voru haldnir nokkrir námskeiðsdagar hjá Olil Amble. Einnig var haldið áfram með opna tíma í höllum félagsins fyrir yngri flokka félagsins.
Sprettur átti 7 fulltrúa í U-21 árs landsliði Íslands sem tók þátt í Norðurlandamóti íslenska hestsins í Herning í Danmörku í ágúst sl. Ungu Sprettararnir stóðu sig vel og riðu mörg þeirra til úrslita í sínum greinum. Ungi Sprettarinn Guðný Dís Jónsdóttir var tilnefnd, ásamt fleirum, í flokknum “Efnilegasti knapa ársins” hjá Landssambandinu og erum við virkilega stolt af þessari tilnefningu.
Yngri kynslóðin og nýliðun:
Metþátttaka var í páskaeggjaleit yngstu Sprettaranna og mættu til leiks rúmlega 50 ungir Sprettarar. Staðið var fyrir helgarferð fyrir unga Sprettara þar sem farið var í Flagbjarnaholt en rúmlega 20 ungir Sprettarar ásamt foreldrum og fylgdarliði mættu með hesta og haldið var til útreiða fyrstu helgina í júní. Hestaklúbbur Spretts var stofnaður en það eru námskeið sem er í gangi yfir allan veturinn þar sem börn og unglingar hittast og gera skemmtilega hluti saman án hesta. Félagshúsið hefur verið á sínum stað í vetur og er umsjónaraðili þess Jóna Guðný Magnúsdóttir og aðstoðar hún börnin og styður þau í sinni hestamennsku. Foreldrafundur ungra Sprettara var haldinn í veislusalnum til að starta nýjum vetri.
Viðburðahald:
Fjölmargir viðburðir hafa verið í höllum félagsins, bæði hestatengdir en einnig hefur veislusalurinn okkar verið töluvert í útleigu sem skapar góðar tekjur fyrir félagið. Fyrripart árs tók Matthildur Kristjánsdóttir við umsjón salarins af Gullu Jónu og Ágústu. Haldið var veglegt Þorrablót í byrjun árs, Dymbilvikusýning, Kvennareið, Kórreið, þrauta- og leikjadagur og Kórkvöld Sprettskórsins var á sínum stað. Aðalfundur, félagsfundur og stefnumótunarfundur voru svo haldnir með með félagsmönnum. Uppskeruhátíð barna og unglinga ásamt uppskeruhátíð ungmenna og fullorðinna var haldin í Spretti með hestamannafélaginu Fáki. Í kjölfarið var haldin glæsileg uppskeruhátíð kynbótanefndarinnar þar sem ræktendur í Spretti voru heiðraðir. Þegar leið að jólum voru haldin litlu jólin fyrir yngri flokka en við enduðum svo árið með um 200 manna Skötuveislu á Þorláksmessu. Þetta ásamt fjölda annarra viðburða var haldinn fyrir félagsmenn í salnum okkar.
Keppnis og sýningarmál:
Vetrarleikar og firmakeppni voru á sínum stað. Haldið var opið æfingamót í Gæðingalist í febrúar og heppnaðist vel. Flottur dagur sem kynbótanefndin hélt í febrúar var á sínum stað þar sem forskoðun kynbótahrossa var í boði. Einnig var sett á laggirnar skemmtilegt mót sem bar nafnið Grímu og glasafimi þar sem gleðin skein úr hverju andliti og var gaman að sjá Sprettara á öllum aldri að glíma við að stjórna hesti sínum með eina hendi á “stýri” og gæta þess að sulla ekki niður úr glasinu.
Glæsilegt kvennatölt var haldið um miðjan apríl og heppnaðist afar vel. Um 160 konur mættu prúðbúnar til leiks en mótið hefur fest sig vel í sessi og knapar koma víðsvegar að af landinu.
Karlatöltið var líka haldið en í þetta sinn ekki við hlið kvennatöltsins heldur í lok apríl. Mótið heppnaðist vel og var góð stemming meðal keppenda. Stórt WR íþróttamót var haldið fyrstu fimm dagana í maí. Gríðarlega mikil vinna liggur að baki skipulagningu á íþróttamóti sem þessu. Mótið gekk vel og margar flottar sýningar sáust. Gæðingamót Spretts fór fram 25. – 27.maí en mótið var jafnframt úrtaka fyrir Landsmót. Mótið var feiknalega sterkt og hestakosturinn frábær. Síðasta mót ársins var Metamót sem haldið var 6. – 8.september. Mótið er mikilvægt fjáröflunarmót fyrir félagið og stemmingin var létt og skemmtileg eins og jafnan á Metamóti.
Við settum á laggirnar nýja deild hjá Spretti sem kallast 1. Deildin og heppnaðist hún virkilega vel. Auk þess vorum við með Áhugamannadeildina og Blue Lagoon deildina í gangi í Samskipahöllinni. Vinna hófst við að laga aðbúnað í Húsasmiðjuhöll og hófst vinna við að setja upp kaffiaðstöðu og snyrtingu sem nýtist vel á stærri námskeiðum og einnig hægt að funda. Hitablásarar voru settir upp inni í sal ásamt því að laga raflagnir í höllinni.
Tvær kynbótasýningar voru haldnar í Spretti í júní og gengu þær framar björtustu vonum. Á yfirlitinu fyrri vikuna voru eldaðar lambakótilettur og útbúinn matsalur í rennu á Samskipahöll sem tók 70 í sæti. Þrjár tíur féllu á brautinni okkar sem og eitt heimsmet, kynbótaknapar og eigendur hrossa voru ánægð með framtak Sprettara og hlakka til að koma aftur að ári liðnu.
Einn af hápunktum ársins var Landsmót hestamanna sem Sprettur hélt í samvinnu með Fáki á félagssvæði Fáks. Mótið heppnaðist með eindæmum vel, skipulag til fyrirmyndar og framkvæmdin á heimsmælikvarða. Flottur hópur knapa keppti á Landsmóti fyrir hönd Spretts og einnig voru hross í eigu Spretts mjög sýnileg á kynbótabrautinni. Sprettur gengur stoltur frá þessu verkefni sem kemur einnig fjárhagslega vel út fyrir félagið.
Innviðamál og umhverfið okkar:
Sett var á laggirnar innviðanefnd innan Spretts sem sér um að hafa augun á mannvirkjum í Spretti og skoða hvað má betur fara er þau varðar. Vallarnefndin hefur unnið mikið verk á árinu við að viðhalda völlunum okkar og gólfinu í reiðhöllunum. Síðsumars var gert mikið átak að laga safnhringinn og var almennt mikil ánægja með þá vinnu hjá keppendum á Metamótinu í haust. Mikil vinna var lögð í lýsingu á reiðleiðunum í vetur sem og vinna við nýjar reiðleiðir sem er í fullum gangi og leidd af reiðveganefnd. Við héldum vel heppnaðan hreinsunardag þar sem fjöldi manns mættu og tóku til hendinni saman.
Mikið var unnið af stjórn í taðmálum á haustmánuðum. Samskipti við bæjarfélögin vegna lausna voru mikil ásamt því var skrifuð tillaga til landsþings Landssambands Hestamanna um að þau hjálpi hestamannafélögunum að beita sér í þessari baráttu. Sprettur ásamt Fáki hóf samtal við Sorpu til að skoða lausnir og einnig var leitað lausna varðandi húsnæðin í Kópavogshluta svæðisins okkar. Við trúum því að allar þessar aðgerðir sem settar voru af stað í haust munu skila sér til félagsmanna.
Sett var í furuflís í gólfið í Samskipahöllinni í byrjun febrúar, áður en öll innanhússmótin fóru af stað, núna í nóvember var svo gólfið í Húsasmiðjuhöll lagfært og sett í það furuflís.
Sjálfboðaliðar og starfsmenn:
Það er algjörlega ljóst að ofangreint hefði aldrei geta orðið að veruleika nema með öflugum og áhugasömum sjálfboðaliðum sem vinna ómælt starf fyrir félagið sitt. Sprettur er svo heppið að hafa svo öflugan mannauð eins og er í félaginu okkar. Án þessa frábæra fólks væri Sprettur ekki það félag sem við erum í dag.
Lilja fór í leyfi frá störfum á vormánuðum og lét svo af störfum í júlí. Staða yfirþjálfara var auglýst og var farið í formlegt ráðningarferli sem endaði með að Þórdís Anna Gylfadóttir var ráðin í starfið. Nýr framkvæmdastjóri tók til starfa í lok september en hefur nú látið af störfum hjá félaginu. Stjórn félagsins heldur áfram að grípa verkefni en starf umsjónarmanns svæðis- og fasteigna hefur verið auglýst og verður ráðið í það starf núna í janúar. Í dag eru 18 virkar nefndir að störfum hjá félaginu og má því segja að lífið í Spretti kraumar hjá öllum öflugum Spretturum. Næst á dagskrá er nefndarkvöld sem fram fer 22. janúar, en þar munu nefndir félagsins fara yfir sína vinnu og hvað er framundan á árinu.
Framþróun Spretts:
Aðalfundur Spretts fór fram í apríl og voru nokkrar breytingar á stjórn félagsins. Jónína var kosin formaður félagsins og tók við af Sverri Einarssyni. Nýir fulltrúar inn í stjórn voru Katla, Sigurbjörn, Hermann og Lárus en Haraldur og Davíð sátu áfram frá fyrri stjórn.
Stjórn vann að siðareglum, hegðunar viðmiðum og aðgerðaráætlun ef upp koma EKKO mál hjá Spretti. EKKO stendur fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Skjalið var kynnt og samþykkt á fjölmennum félagsfundi í september. Nú er Sprettur í því ferli að sækja um að vera fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Afreksstefna Spretts var gefin út í haust og samþykkt á félagsfundinum í lok september. Gott samtal hefur verið við bæjarfélögin og stjórn farið á nokkra fundi með bæjarstjórum Kópavogs og Garðabæjar. Hugmyndir eru um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu okkar, stækkun á Samskipahöll með upphitunaraðstöðu/kennsluhöll, nýtt félagshesthús með möguleika á plássi fyrir skiptihesta þar sem að fleiri en einn knapi getur nýtt sama hestinn, fjölgun reiðleiða og verða þau mál unnin áfram 2025 með nefndum félagsins.
Haldinn var stefnumótunarfundur í nóvember þar sem félagsmenn komu saman og í sameiningu var búin til stefnumótun fyrir Sprett. Þetta var góður fundur þar sem félagsmenn með mismunandi áherslur komu saman og fundu út hvað Sprettur á að standa fyrir. Gildi Spretts eru Samvinna, Virðing og Öryggi. Stjórn Spretts, starfsmenn og sjálfboðaliðar munu í sameiningu vinna eftir niðurstöðunni, sjá í meðfylgjandi mynd.
Hápunktur ársins var svo þegar Sprettur hlaut hin eftirsótta æskulýðsbikar Landssamband hestamannafélaga sem er afhentur því félagi sem staðið hefur upp úr í æskulýðsstarfi á ári hverju. Þetta er ein æðsta viðurkenning sem hægt er að hlotnast fyrir æskulýðsstarf. Stjórn Spretts, yfirþjálfari og æskulýðsnefnd leggja mikinn metnað í að starfið í Spretti sé metnaðarfullt því þarna er framtíðar grasrótin og því eitt það mikilvægasta í starfi Spretts.
Stjórn hefur gert mikið átak í að fara yfir allar mögulegar tekjur í félaginu okkar og sú vinna er að skila góðum árangri. Niðurstaða í rekstri félagsins verður kynnt á aðalfundi sem fram fer nú seinnipart vetrar 2025.
Gott og lærdómsríkt ár er að baki og ljóst að við í Spretti horfum björtum augum fram á við. Við í stjórn viljum þakka öllum félagsmönnum, sjálfboðaliðum og starfsfólki kærlega fyrir liðið ár og hlökkum til að takast á við skemmtilegar áskoranir á árinu sem er að hefjast. Áfram Sprettur!